Viðskipti innlent

Ósammála um virði „síðasta móhíkanans“

Eggert Þór Aðalsteinsson

skrifar

Hlutabréf í Vinnslustöðinni hafa síðustu daga verið að skipta um hendur á genginu 6,0-7,0 krónur á hlut sem er langt yfir væntanlegu yfirtökutilboði frá hluthafahópi í Vinnslustöðinni sem ræður yfir meirihluta hlutafjár. Í síðustu viku greindi hópur undir forystu Haraldar Gíslasonar, Kristínar Gísladóttur og Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar, framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins, frá því að hluthafar hefðu gert með sér samkomulag um stjórnun og rekstur félagsins og myndu þar af leiðandi leggja fram yfirtökutilboð í maí á genginu 4,6 krónur á hlut en þar við bætist 30 prósenta arður. Það er sama gengi og var í síðustu viðskiptum í Kauphöll Íslands fyrir undirskrift samkomulagsins og því ekkert yfirverð um að ræða. Lokagengi Vinnslustöðvarinnar í gær var sjö krónur á hlut sem er 50 prósentum yfir tilboðsverði.

„Viðskipti voru orðin afar fátíð og menn mátu það þannig að tilgangurinn að hafa félagið á markaði væri ekki orðinn mikill,“ segir Sigurgeir Brynjar aðspurður um ástæður þess að ráðandi hluthafar hafa í hyggju taka félagið af markaði. Eignarhald Vinnslustöðvarinnar, sem nefnt hefur verið „síðasti móhíkaninn“ í Kauphöllinni, enda síðasta sjávarútvegsfélagið á Aðallistanum, er þröngt. 65-67 prósent hlutafjár eru í höndum tiltölulega þröngs hóps heimamanna og rúm þrjátíu prósent eru í eigu bræðranna Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona frá Rifi sem taldir eru áhugasamir um að styrkja stöðu sína í félaginu. Guðmundur er forstjóri Brims en Hjálmar er stjórnarmaður í Vinnslustöðinni. „Okkur finnst þetta gengi heldur lágt. Reksturinn gekk vel í fyrra og aflaheimildir hafa hækkað mikið,“ segir Guðmundur.

Það sem skýrir hærra gengi gætu verið væntingar um að hærra yfirtökutilboð berist. Yfirtaka stærstu eigenda er, samkvæmt upplýsingum, svar við símhringingum Landsbankans til hluthafa þar sem verið var að falast eftir bréfum fyrir allt að átta krónur á hlutinn. Talið er líklegt að LÍ hafi boðið í bréfin fyrir þriðja aðila. Það er 74 prósentum hærra en yfirtökutilboð ráðandi hluthafa. Miðað við tilboðið munar rúmum 5,1 milljarði á tilboði LÍ og yfirtökutilboðinu. „Það er svo hverjum í sjálfsvald sett hvort þeir taka því tilboði sem gert verður,“ bætir Sigurgeir Brynjar við en vill ekkert upp gefa hvort tilboðsverð komi til með að hækka.

Mörgum finnst að markaðsvirði Vinnslustöðvarinnar hafi ekki endurspeglað raunverulegt virði félagsins og það setið eftir í samanburði við ávöxtun annarra fyrirtækja í Kauphöll, þótt ekkert fyrirtæki hafi hækkað meira það sem af er þessu ári. Það er engum vafa undirorpið að upplausnarvirði félagsins, það er þau verðmæti sem fengjust með að leysa félagið upp, til dæmis með sölu á aflaheimildum, er vel yfir markaðsvirði. Hins vegar er það ljóst að ráðandi hluthafar horfa ekki til upplausnarvirðis með áformum sínum, heldur til þeirra verðmæta sem reksturinn er að skapa. Greiningardeildir Kaupþings og Glitnis meta gengi Vinnslustöðvarinnar til næstu mánaða á 4,7-4,8 krónur hlutinn út frá greiningu sem grundvallast á því sjóðsstreymi sem áætlaður rekstur skapar til framtíðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×