Væntingavísitalan í Þýskalandi lækkaði nokkuð á milli mánaða í ágúst og hafa Þjóðverjar ekki verið svartsýnni um horfur á næstu mánuðum í hálft ár og nú. Ástæðan fyrir þessu eru þrengingar á bandarískum fasteignamarkaði og spár um að það geti dregið úr hagnaði fyrirtækja og hagvexti á heimsvísu.
Tvö þúsund Þjóðverjar tóku þátt í væntingakönnun, sem þýska fyrirtækið GfK AG stóð að, að sögn fréttaveitunnar Bloomberg.
Þetta er talsvert meiri lækkun en gert hafði verið ráð fyrir en Bloomberg bendir á að greinendur hefðu gert ráð fyrir því að væntingavísitalan myndi lækka úr 8,7 stigum í 8,5 stig. Raunin var hins vegar sú að vísitalan fór niður í 7,6 stig.
Fjármálafyrirtæki í Evrópu hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna aukinna vanskila á bandarískum fasteignalánamarkaði. Þýskir bankar eru ekki undanskildir því en Landesbank Baden-Wuerttemberg, einn stærsti ríkisbanki Þýskalands, samþykkti í vikubyrjun að kaupa Landesbank Sachsen Girozentrale sem átti í vandræðum vegna lánasafns sem hann hafði fjárfest í.