Innlent

Bakvísandi bílstólar öruggari

Forvarnarfulltrúar tryggingafélaga hvetja foreldra til að nota bakvísandi bílstóla fyrir börn sín þar til þau ná 25 kílóum að þyngd.
Forvarnarfulltrúar tryggingafélaga hvetja foreldra til að nota bakvísandi bílstóla fyrir börn sín þar til þau ná 25 kílóum að þyngd.

Það munar mikilu á öryggi bakvísandi og framvísandi bílstóla. Í bílslysum sleppa 60 prósent þeirra barna sem eru í framvísandi stólum án alvarlegra meiðsla en í bakvísandi sleppa 90 prósent þeirra. Því ætti fólk hiklaust á velja barnastól sem snýr baki í akstursstefnu og hafa það í honum þar til það verður 25 kíló. Þetta segir Ragnheiður Davíðsdóttir, forvarnarfulltrúi VÍS.

Í fréttum blaðsins í gær var greint frá því að forsvarsmenn íslenskra tryggingarfélaga eru uggandi yfir því hve dræmar móttökur bakvísandi bílstólar hafa fengið hér á landi en þeir mæla með því að börn séu í þeim til þriggja ára aldurs þar sem þeir þykja mun öruggari.

Ragnheiður segir VÍS fyrst hafa flutt þessa stóla til landsins eða árið 1994. Þeir hafi þá komið frá Svíþjóð en þar séu bakvísandi stólar mjög algengir og dauðaslys barna í bílslysum nær óþekkt. Hún segir helstu ástæðuna fyrir því að Íslendingar vilji síður nota bakvísandi stóla vera þá að þeir taki þægindin fram yfir öryggið, Undir það tekur Herdís Storgaard hjá Forvarnarhúsi Sjóvár. Þær benda á að algengustu slys á Íslandi séu vegna hliðar- eða framanákeyrslna og við þau séu bakvísandi stólar mun betri þar sem minna álag verði á háls og höfuð barnsins í þeim. „Þeir sem útvega bakvísandi stóla eru VÍS, Sjóvá, Bílanaust og Ólavía og Oliver, um fleiri staði veit ég ekki en fólk ætti að velja þá bakvísandi þar til barnið nær 25 kílóa þyngd,“ segir Herdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×