Innlent

Ísland best í heimi

Ísland toppar nú lista Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna yfir þau lönd þar sem best er að búa. Norðmenn, sem hafa trónað á toppi listans, eru komnir í annað sæti.

Ísland best í heimi. Þetta hafa Íslendingar löngum talið sig vita en nú er komin staðfesting frá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Árlegur lífskjaralisti Sameinuðu þjóðanna er birtur opinberlega um allan heim nú á hádegi.

Á síðasta ári voru Norðmenn í fyrsta sæti og Íslendingar í öðru en nú verða vistaskipti og Ísland er opinberlega besta land í heimi að búa í.

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir tíðindin ánægjuleg í ljósi þess tals sem stundum verði tvar hér á landi að allt sé í hálfgerðu böli.

Leggur miklar skyldur á herðar Íslendinga

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir Íslendinga mikla forréttindaþjóð að vera þarna á toppnum. „En það leggur okkur líka miklar skyldur á herðar því það er kannski ekki svo mikið sem skilur að þessi ríki sem raða sér efst en það er himinn og haf sem skilur þau að og svo aftur ríkin sem eru neðst. Ábyrgð okkar er auðvitað gagnvart þeim og við eigum að horfa á þau í dag," segir Ingibjörg.

Noregur var efst á þessum lista í sex ár og raunar fengu Noregur og Ísland jafn mörg stig í ár. Uppgangur Íslands útskýrist af auknum þjóðartekjum og útreikningi á lífslíkum.

Þröstur Freyr Gylfason, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna, segir að við vinnslu listans sé horft til margra atriða, þeirra sömu á milli allra ríkja þaðan sem gögn berast. Meðal annars sé horft til þjóðartekna, jafnréttis, hversu mörg börn fari til mennta og ævilíkna. Þetta er í 18. sinn sem skýrslan kemur út.

Neðst á listanum er Sierra Leone, sem enn hefur ekki náð sér á strik eftir langvinna og blóðuga borgarastyrjöld.

Geir H. Haarde var spurður um það eftir ríkisstjórnarfund í dag hvort Ísland væri besta landi í heimi. „Er nokkur spurning um það," sagði Geir og brosti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×