Innlent

Lofað að skurðum við hesthús verði lokað

Þorvaldur Sigurðsson
Þorvaldur Sigurðsson

Þorvaldur Sigurðsson, formaður hestamannafélagsins Andvara í Kópavogi, segir að bæjaryfirvöld hafi lofað því að loka öllum skurðum á Kjóavallahringnum fyrir helgi.

„Við sjáum til hvort það stenst,“ sagði Þorvaldur eftir fund með bæjaryfirvöldum í fyrradag. „Þeir hafa lofað bót og betrun í tvo mánuði.“

Þorvaldur segir að stjórn hafi sent „endalausan tölvupóst og verið á endalausum fundum“ út af framkvæmdum við fótboltahús, íþróttaakademíu, skurðum undir vatnslagnir og blokkabyggingum í Kórahverfi þétt við og í kringum hestamannahverfið Heimsenda. „Þeir virða ekki hestamenn á nokkurn hátt þessir verktakar,“ segir hann.

Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, segir að brýnt hafi verið fyrir verktökum á vegum Kópavogsbæjar að nota ekki reiðleiðir til aksturs. Eftir helgina eigi verktakafyrirtækið Klæðning að hafa lokið öllum sínum framkvæmdum á svæðinu.

Sigþór Ari Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðningar, segir að hann hafi ekki fengið kvartanir inn á borð til sín. Verkkaupinn hafi verið mjög hliðhollur hestamönnum og „við höfum reynt að sinna því eftir fremsta megni,“ segir hann.

„Við höfum ekki fengið eina einustu kvörtun inn á borð til okkar,“ segir Eiður Haraldsson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Háfells, „en alltaf er hægt að gera betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×