Viðskipti innlent

Fasteignaverð hækkar enn

Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,8% í september samkvæmt tölum frá Fasteignamati ríkisins, eftir því sem fram kemur í Hálf-fimm fréttum Kaupþings. Síðastliðna sex mánuði hefur vísitalan hækkað um 8% á höfuðborgarsvæðinu. Tólf mánaða hækkun vísitölunnar stendur enn í 11%.

„Á síðustu 12 mánuðum hefur hækkun verðs á fjölbýli verið um 11,3% en sérbýli hefur hækkað um 10,3%. Ein vísbending um aukna eftirspurn á fasteignamarkaði er fjöldi þinglýstra kaupsamninga á markaði. Heildarfjöldi kaupsamninga í september var u.þ.b. 900 og er það fjölgun um 90% frá fyrra ári.

Greiningardeild gaf nýverið út fasteignaspá, Haust á fasteignamarkaði, en í þeirri spá er gert ráð fyrir að það dragi úr umsvifum á fasteignamarkaði á næsta ári samhliða niðursveiflu í efnahagslífi á sama tíma og vextir haldast áfram háir," segir Greiningadeild Kaupþings.

Lægri byggingakostnaður

Í Hálf-fimm fréttum segir að á sama tíma og fasteignaverð sé að hækka, lækki vísitala byggingarkostnaðar. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hafi byggingarkostnaður lækkað um 0,1% í október frá fyrra mánuði en á síðustu 12 mánuðum hafi hann hækkað um 6,3%.

Byggingarvísitala Hagstofunnar sýnir breytingar á kostnaði við byggingu fjölbýlishúsa á höfuðborgarsvæðinu. Vísitalan tekur hins vegar ekki mið af þróun lóðaverðs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×