Viðskipti innlent

Óheppilegt að loka í heilan dag

Þórður Friðjónsson.
Þórður Friðjónsson.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að lögð sé áhersla á að stöðva viðskipti með bréf fyrirtækis í Kauphöllinni eins sjaldan og í eins stuttan tíma og mögulegt er. Viðskipti með bréf í FL Group voru stöðvuð í morgun og sagt að tilkynning frá félaginu væri væntanleg. Sú tilkynning barst hins vegar ekki fyrr en klukkan 16:45 eða við lokun markaða.

„Venjan er nú sú að miða við að stöðvanir séu eins sjaldan og í eins skamman tíma og mögulegt er," segir Þórður í samtali við Vísi. „Við höfum miðað við að reyna að koma í veg fyrir að lokun sé lengur en í tvo tíma," segir hann en bætir því við að engin formleg séu mörk á þessu. „Það er matsatriði á hverjum tíma hvað er í þágu markaðarns og fjárfesta. „Í þessu tilviki ákváðum við að hinkra en tilkynningin dróst á langinn," segir Þórður en það er Kauphöllin sem tekur ákvörðun um að loka á viðskipti með bréf.

Þórður segir óheppilegt að lokað sé í heilan dag, það eigi að heyra til algerra undantekningatilvika. „Ég man aðeins eftir einu tilviki um svona langa lokun síðan ég byrjaði hjá Kauphöllinni, en það var í tengslum við miklar eignatilfærslur á milli Eimskips, Straums-Burðaráss og fleiri fyrirtækja," segir Þórður að lokum og bætir því við að Kauphöllin leggi þunga áherslu á að lokanir á markaðinum séu sjaldgæfar og standi yfir í stuttan tíma í senn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×