Viðskipti innlent

Íslendingar hagnast á kaupum Nokia í Enpocket

Nokia keypti Enpocket.
Nokia keypti Enpocket.
Farsímafyrirtækið Nokia hefur keypt allt hlutafé Enpocket, alþjóðlegs farsímamiðlunarfyrirtækis sem leggur áherslu á markaðssetningu og auglýsingar í gegnum farsíma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Brú.

Kaupverðið er ekki gefið upp en fjárfestingarsjóðurinn Brú Venture Capital, sem var einn af fjórum stærstu hluthöfunum í Enpocket, innleysir umtalsverðan söluhagnað ásamt um 50 öðrum íslenskum hluthöfum.

Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri hjá Brú, segir að salan sé gott dæmi um að nýsköpun borgi sig. „Árangur Enpocket er afrakstur af kröftugu frumkvöðlastarfi hér á landi og það er fagnaðarefni að sjá menn fá afrakstur af vinnu sinni í formi umtalsverðs söluhagnaðar. Ég vona að þeir aðilar sem komu þessu verkefni af stað komi að fleiri nýsköpunarverkefnum með okkur," segir Gísli.

Brú eignaðist upphaflega hlut í Enpocket í gegnum Landmat. Landmat var sameinað Enpocket í október 2004 en fyrirtækið var stofnað 1999 og hafði náð góðum árangri í þróun margmiðlunarefnis fyrir farsíma. Margir stjórnarmenn og starfsmenn sem áttu hlut í Landmati eignuðust hlut í Enpocket við sameininguna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×