Viðskipti erlent

Sony gegn klámi

Japanska hátæknifyrirtækið Sony mun ekki á nokkurn hátt veita þeim fyrirtækjum sem framleiða klámmyndir hjálparhönd við að gefa myndefni sitt út á Blu-ray mynddiskum. Sony ætlar hins vegar ekki að standa í vegi fyrir því að fyrirtækin gefi myndir af þessum toga út á diskunum, sem hafa verið nefndir næsta kynslóð í mynddiskatækni ásamt HD DVD-diskum.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum benda á að Sony hafi gripið til svipaðra ráða undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar þegar fyrirtækið neitaði að gefa fyrirtækjum í klámiðnaðinum leyfi til að nota Betamax-myndbandatæknina. Ákvörðun sem þessi getur verið varasöm, að mati vefmiðilsins Playfuls.com sem reifar afdrif Betamax-tækninnar í baráttunni við VHS-myndbandatæknina.

 

Þeir sem eru um miðjan aldur muna vel eftir baráttunni en í sem stystu máli heyrir fyrrnefnda tæknin sögunni til þrátt fyrir meiri gæði en VHS-tæknin. Geti andstaða Sony orðið til þess að Blu-ray-tæknin verði undir í baráttunni við önnur tæknifyrirtæki, sem einblína á HD DVD. Bandaríska fyrirtækið Vivid Video ætlar þrátt fyrir þetta að ráðast í útgáfu á nýjustu mynd sinni á báðum gerðum háskerpudiskanna í vor. Þar er um að ræða framhaldsmynd kvikmyndarinnar Debbie Does Dallas sem kom út árið 1978.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×