Viðskipti erlent

Ánægja með stýrivaxtalækkun

Margir íbúa Brasilíu hafa lýst yfir ánægju með seðlabankann þar í landi sem lækkaði stýrivexti til að blása lífi í einkaneyslu.
Margir íbúa Brasilíu hafa lýst yfir ánægju með seðlabankann þar í landi sem lækkaði stýrivexti til að blása lífi í einkaneyslu. Markaðurinn/AFP

Seðlabanki Brasilíu ákvað í síðustu viku að lækka stýrivexti um 50 punkta í 12 prósent. Bankinn hefur lækkað stýrivexti hratt síðastliðin tvö ár með það fyrir augum að blása lífi í einkaneyslu.

Hagvöxtur í Brasilíu mældist 3,7 prósent á síðasta ári og er búist við að hann verði 0,3 prósentustigum betri á þessu ári. Þá var verðbólga 3,14 prósent í fyrra. Hún liggur nú í námunda við þrjú prósent.

Ákvörðunin var í takt við spár greinenda sem þó gagnrýndu seðlabankann fyrir að fara of varlega. Þrýstu þeir á snarpari lækkun stýrivaxta til að auka einkaneyslu.

Almenn ánægja var með ákvörðun seðlabankans í vikunni og lýstu samtök iðnaðarins þar í landi yfir því að aðstæður hefðu nú skapast til að auka hagvöxt í landinu. Þau sögðu engu að síður enn innistæðu fyrir frekari lækkun stýrivaxta vegna hás gengis brasilíska realsins, gjaldmiðils Brasilíu, gagnvart Bandaríkjadal. Hefði það komið illa niður á útflutningsfyrirtækjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×