Viðskipti innlent

Icelandair hugleiðir einkaþotuflota í Mið-Evrópu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Sigþór Einarsson, frá Icelandair Group, Roman Vik, forstjóri Travel Service, og Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, á fundi í Prag fyrir helgi, en þangað var boðið blaðamönnum, greinendum fjármálafyrirtækja, stjórnarmönnum Icelandair og fleirum til að kynna reksturinn.
Sigþór Einarsson, frá Icelandair Group, Roman Vik, forstjóri Travel Service, og Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, á fundi í Prag fyrir helgi, en þangað var boðið blaðamönnum, greinendum fjármálafyrirtækja, stjórnarmönnum Icelandair og fleirum til að kynna reksturinn. MYND/ÓKÁ
„Ekki er út í hött að hugsa sér 20 til 30 véla einkaþotuflota í Mið-Evrópu þegar fram í sækir,“ segir Sigþór Einarsson, framkvæmdastjóri þróunar og stefnumótunar, hjá Icelandair Group.

Tékkneska flugfélagið Travel Service, sem er að 80 prósentum í eigu Icelandair Group, starfrækir þegar eina Cessna-einkaþotu fyrir níu farþega. Fram kom í máli Romans Vik, forstjóra Travel Service, á kynningarfundi Icelandair í Tékklandi fyrir helgi að vélin væri umsetin og hefði næg verkefni, sér í lagi frá Rússlandi. Sigþór segir þegar búið að leggja inn pöntun fyrir annarri vél. „Þetta er ört vaxandi markaður,“ segir hann og bætir við að stefnt sé á öran vöxt þessarar þjónustu.

Travel Service er stærsta einkarekna flugfélag Tékklands með um 10 prósenta markaðshlutdeild á alþjóðaflugvellinum í Prag á eftir ríkisflugfélaginu. Þá á Travel Service og rekur lággjaldaflugfélagið Smart Wings.

Farið var yfir horfur í rekstrinum á fundi Icelandair í Prag. Skrifað var undir kaupsamning á Travel Service í síðasta mánuði. Á móti Icelandair Group eiga í félaginu Roman Vik forstjóri og Lenka Vikova 10 prósent, en hin 10 prósentin eiga eigendur Unimex Group, sem er með margvíslegan verslana- og fyrirtækjarekstur í Tékklandi og víðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×