Erlent

Hjálparstarf í kapphlaupi við tímann

Íbúar í þorpinu Manikgonj í Bangladess biðu í gær eftir hjálparstarfsfólki, sem kom færandi hendi með mat, vatn og lyf.
Íbúar í þorpinu Manikgonj í Bangladess biðu í gær eftir hjálparstarfsfólki, sem kom færandi hendi með mat, vatn og lyf. MYND/AFP

Hjálparstarfsfólk þarf að hafa hraðar hendur við að koma aðstoð til íbúa á flóðasvæðunum í Suður-Asíu. Þótt vatnið sé farið að sjatna þá verður það hættulegra heilsu fólks með hverjum deginum sem líður. „Vandamálið núna er að fólkið hefur ekki ferskvatn. Það hefur flætt yfir alla brunna og fólk er jafnvel að drekka bara flóðavatn. Þannig fara sjúkdómarnir af stað," segir Alistair Grétarsson, upplýsingafulltrúi hjá UNICEF á Indlandi.

Hjálparstarfsmenn hafa verið að dreifa klórtöflum og sótthreinsa vatnsból, auk þess sem þeir dreifa matvælum, vatni og lyfjum til íbúanna.

„Það kemur ekki almennilega í ljós fyrr en eftir nokkra daga hve þetta er alvarlegt í raun," segir Alistair.

Margir íbúanna fóru heim til sín strax og vatnið fór að sjatna, og hunsuðu viðvaranir um að bíða í einn eða tvo daga í viðbót í neyðarbúðum meðan gengið yrði úr skugga um að öruggt væri að snúa heim.

Í Suður-Asíu eru monsúnflóðin árviss viðburður, en nú í ár hafa þau verið miklu meiri en venja er til. Síðasta hálfa mánuðinn hafa þau kostað hátt í fimm hundruð manns lífið á norðanverðu Indlandi, í Bangladess og í Nepal.

„Ástandið hefur verið verst í þremur fylkjum hér á Indlandi, það er í Assam, Bihar og Uttar Pradesh. Sem stendur er það verst í Bihar, en það er þó að lagast aðeins," segir Alistair, sem staddur er í Nýju-Delí en fer á flóðasvæðin í næstu viku.

Hjálparstofnanir, sem starfa á svæðinu, segja mikla hættu á því að alvarlegt ástand geti skapast innan fárra daga ef íbúunum berst ekki aðstoð. Þótt vatnsmagnið í ánum sé að minnka þá liggur flóðavatnið víða kyrrt áfram og rennur hægt í burtu.

Þorpsbúar í héraðinu Uttar Pradesh á Indlandi hafa margir fengið klórtöflur til að hreinsa drykkjarvatnið, en hætt var við að varpa drykkjarvatni á belgjum niður úr þyrlum vegna fjölmargra kvartana um að belgirnir hafi sprungið við fallið.

Um 40 prósent íbúanna á flóðasvæðunum eru á barnsaldri og ástandið kemur verst niður á þeim. Í Uttar Pradesh hafa um þúsund manns veikst og vitað er um 1.400 manns í Bangladess sem veikst hafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×