Viðskipti erlent

Skoða sögur af illri meðferð verkafólks

Bresku verslanakeðjurnar Tesco og Asda kanna nú réttmæti staðhæfinga um að illa sé farið með starfsfólk fataverksmiðja í Bangladesh, sem keðjurnar skipta báðar við.



Ásakanirnar komu fram í kjölfar rannsóknar breska dagblaðsins The Guardian sem leiddi í ljós að verkamenn fataverksmiðjanna fá allt niður í fjögur pens, jafnvirði tæpra fimm króna, á tímann fyrir vinnu sína. Þá vinna þeir oft áttatíu stunda vinnuviku, jafnvel undir ofbeldisfullri stjórn, og hafa ekki aðgang að verkalýðsfélögum.



Í frétt á vef BBC brást talsmaður Tesco við rannsóknum The Guardian með því að segja keðjuna gera allt til að tryggja háa gæðastaðla og góð vinnuskilyrði í Bangladesh. Ákveðin skref hefðu verið stigin í þá átt að að bæta vinnuskilyrði þeirra starfsmanna sem áttu í hlut. Allar 48 verksmiðjurnar sem keðjan skipti við í Bangladesh hefðu þegar verið yfirfarnar. Talsmaður Asda sagði alla misnotkun óásættanlega og að verksmiðjur birgjanna sem skipt er við yrðu hugsanlega yfirfarnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×