Viðskipti erlent

Nýliðinn fær milljarða

Nýliðanum Greg Oden er ætlað að feta í fótspor Clyde Drexler og leiða Portland til afreka. Oden fær fúlgur fjár í sinn hlut auk þess sem búist er við margfaldri treyjusölu í Portland.
Nýliðanum Greg Oden er ætlað að feta í fótspor Clyde Drexler og leiða Portland til afreka. Oden fær fúlgur fjár í sinn hlut auk þess sem búist er við margfaldri treyjusölu í Portland.

Greg Oden, sem valinn var fyrstur í nýliðavali NBA-deildarinnar í körfuknattleik á dögunum, skrifaði á sunnudag undir samning við Portland Trailblazers.

Oden gerði tveggja ára samning sem hann getur síðan framlengt um tvö ár hugnist honum svo. Nýliðinn fær í sinn hlut rúmar 228 milljónir íslenskra króna fyrir fyrsta árið og fer upphæðin stighækkandi. Ákveði Oden að framlengja samninginn fær hann í sinn hlut tæpar 270 milljónir fyrir fjórða ár sitt hjá félaginu.

Nýliðavalið í ár þótti það sterkasta í manna minnum og Oden feitasti bitinn. Oden fær ekki einungis hundruðmilljóna frá sínu nýja félagi á ári hverju heldur á hann von á milljörðum króna í styrktarsamningum frá hinum ýmsu stórfyrirtækjum.

Lið Portland hefur verið með þeim allra slökustu í NBA-deildinni undanfarin ár. Forráðamenn félagsins vona að Oden beri liðsfélaga sína á herðum sér og leiði félagið til afreka á komandi árum.

Aðdáendur bíða komu Oden í ofvæni en þeir hafa ekki átt sér átrúnaðargoð síðan Clyde „The Glide“ Drexler var upp á sitt besta í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar. Markaðsstjórar NBA-deildarinnar eru ekki síður spenntir og telja að Oden margfaldi treyjusölu hjá Portland-liðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×