Viðskipti erlent

Stórlaxinn hrapar í verði

Gengi bréfa í fjárfestingafélaginu Blackstone hækkaði um 20 prósent á fyrsta viðskiptadegi á föstudag. Það hefur hríðlækkað síðan og er nú undir útboðsgengi.
Gengi bréfa í fjárfestingafélaginu Blackstone hækkaði um 20 prósent á fyrsta viðskiptadegi á föstudag. Það hefur hríðlækkað síðan og er nú undir útboðsgengi. MYND/AÐ

Bandaríska fjárfestingafélagið Blackstone Group hefur átt verra gengi að fagna í bandarísku kauphöllinni vestanhafs en vonir stóðu til. Gengið hefur hríðfallið í vikunni og er nú komið undir útboðsgengi.

Fjárfestingafélagið Blackstone Group var skráð í Kauphöllina í New York í Bandaríkjunum á föstudag í síðustu viku að undangengnu velheppnuðu hlutafjárútboði með rúman 12 prósenta hlut í félaginu.

Talsverðrar eftirvæntingar gætti fyrir útboðið og var mikil umframeftirspurn eftir bréfum í þessu einu af stærstu fjárfestingafélögum heims. Þegar útboðinu lauk á fimmtudag höfðu 153,3 milljónir bréfa selst í félaginu fyrir jafnvirði 258 milljarða króna á genginu 31 dalur á hlut, sem var í efri mörkum væntinga.

Að útboðinu loknu sagði fréttaveitan Bloomberg Blackstone einn af stórlöxunum í bandarísku kauphöllinni með markaðsvirði upp á 33,5 milljarða dala, jafnvirði 2.100 milljarða íslenskra króna. Bloomberg varaði hins vegar við því í gær að ekki megi búast við jafn miklum vexti fjárfestingafélaga og undanfarin misseri þar sem lántökur væru orðnar kostnaðarsamar og yfirtökur því erfiðari.

Rúmur helmingur af nýju hlutafé Blackstone rann í vasa Stephens Schwarzman og Peters G. Peterson en þeir stofnuðu félagið árið 1985 með 400 þúsund dali upp á vasann.

Upphafsgengi bréfa Blackstone var 36,45 dalir á hlut á föstudag og hækkaði talsvert í fyrstu viðskiptum, fór hæst upp um 45 prósent. Dagshækkun var engu að síður ágæt, um 20 prósent.

Gengi bréfanna hefur fallið hratt í þessari viku, þar af um 5,2 prósent á þriðjudag og endaði undir útboðsgengi við lokun viðskipta. Lækkanaferlið hélt áfram í gær og stóð gengið í kringum 30 dali á hlut um miðjan dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×