Viðskipti innlent

Sex þúsund Íslendingar kaupa í færeyskum banka

Gríðarleg eftirspurn var eftir hlutabréfum í Föroya Banka. Íslendingar létu ekki sitt eftir liggja.
Gríðarleg eftirspurn var eftir hlutabréfum í Föroya Banka. Íslendingar létu ekki sitt eftir liggja.

Um 6.200 íslenskir fjárfestar skráðu sig fyrir hlutabréfum í einkavæðingu Føroya Banka. Um 26-föld eftirspurn reyndist vera eftir hlutabréfum í bankanum en yfir fimmtán þúsund fjárfestar tóku þátt í hlutafjárútboðinu, þar af níu þúsund frá Færeyjum. Í boði voru 12,7 milljarðar króna en kaupendur óskuðu eftir 330 milljörðum.



Fíggingargrunnurin frá 1992, sem er í eigu færeysku landsstjórnarinnar, seldi um 60 prósent hlutafjár í bankanum til almennra fjárfesta í Danmörku, Færeyjum og á Íslandi og til fagfjárfesta um nær allan heim. Sjóðurinn hefur falið Handelsbanken í Kaupmannahöfn að selja sex prósent til viðbótar. Um fimmtungur hlutafjárins rennur í skaut smærri fjárfesta í löndunum þremur en Færeyingar fá helming fyrir sinn snúð.



Janus Petersen, forstjóri Føroya Banka, er afar sáttur með viðtökurnar og þann mikla áhuga sem fjárfestar um allan heim sýndu. „Fjárfestar á Íslandi og Færeyjum sýndu útboðinu mikinn áhuga og það sama má segja um fjárfesta í Skandinavíu og frá meginlandi Evrópu."



Bankinn, sem er með um fjörutíu prósenta markaðshlutdeild í inn- og útlánum á Færeyjamarkaði, verður skrásettur með pompi og pragt í Kauphöll Íslands og Kauphöllina í Kaupmannahöfn í dag.



„Við settum fram áætlanir um vöxt bankans fyrir tveimur árum og erum á góðri leið að ná þeim markmiðum. Við horfum til vaxtar á markaði fyrir utan eyjarnar," segir Petersen. „Það kemur svo síðar í ljós hvert stefnan verður sett."



Mikil skerðing kemur til í almenna hluta útboðsins. Fjárfestar sem skráðu sig fyrir 60 hlutum eða minna fá allt það sem þeir óskuðu eftir. Sextíu hlutir eru um 127 þúsund krónur miðað við útboðsgengið 189 danskar krónur á hlut og gengi dönsku krónunnar í gær. Þeir sem skráðu sig fyrir fleiri hlutum en sextíu fá aðeins tvö prósent af því sem þeir báðu umfram. Hámarkshlutur almennra fjárfesta getur því orðið um 550 þúsund krónur.

Hlutum til stofnanafjárfesta, sem skráðu sig í áskriftasöfnun (book building), verður úthlutað samkvæmt ákvörðun umsjónaraðila útboðsins. Íslensku lífeyrissjóðirnir eru meðal kaupenda, en samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins lögðu seljendur á það áherslu að fá inn langtímafjárfesta.

Hjá Landsbankanum, sem annaðist útboðið á Íslandi, fengust þær upplýsingar að greiðsluseðlar muni berast fjárfestum á allra næstum dögum. Gjalddagi verður þann 26. júní en eindagi lá ekki fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×