Viðskipti erlent

Vilja ekki kaupa ABN Amro

Nýir hluthafar breska bankans Barclays vilja að hann hætti við yfirtöku á hollenska bankanum ABN Amro.
Nýir hluthafar breska bankans Barclays vilja að hann hætti við yfirtöku á hollenska bankanum ABN Amro. Markaðurinn/AFP

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Atticus þrýsti á stjórnendur breska bankans Barclays að draga yfirtökutilboð sitt í hollenska bankann ABN Amro til baka.

Atticus kom í hluthafahóp Barclays í síðustu viku eftir kaup á eins prósenta hlut í bankanum. Segir í opnu bréfi sjóðsins til Marcus Agius, stjórnarformanns Barclays, sem Atticus birti í breska dagblaðinu Financial Times, að hætta sé á að verðmiðinn fyrir ABN Amro verði Barclays dýr.

Í bréfinu kom fram að Barclays muni gefa út nýtt hlutafé vegna kaupanna, sem hljóði upp á 65 milljarða evra, jafnvirði 5.600 milljarða íslenskra króna. Það jafngildir 15-földum hagnaði ABN Amro. Atticus segir þetta of stóran bita fyrir Barclays að kyngja þar sem samlegð með bönkunum tveimur sé lítil. Að mati Atticus eru horfur á að samlegðin sé meiri hjá Royal Bank of Scotland og ABN Amro og því séu líkur á að skoski bankinn og meðbjóðendur hans hækki tilboðið til að tryggja sér bankann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×