Viðskipti erlent

Ofhitnun í Indlandi

Úr indversku kauphöllinni
Úr indversku kauphöllinni

Indverska hagkerfið sýnir klassísk merki um ofhitnun í efnahagslífinu. Hagvöxtur hefur verið mikill og verðbólga aukist jafnt og þétt. Grípa þarf til aðgerða til að verðbólga fari ekki úr böndunum. Þetta segir í skýrslu alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody‘s um indversk efnahagsmál sem kom út undir lok síðustu viku.

Hagvöxtur á Indlandi nemur tæpum níu prósentum á sama tíma og verðbólga stendur í rúmum sex prósentum. Þetta er meira en æskilegt er, að mati Moody‘s, sem telur horfur engu að síður stöðugar þrátt fyrir að eftirspurn á innanlandsmarkaði sé langt umfram framboð sem hafi skilað sér í auknum viðskiptahalla.

Þá hafa fjárfestingar erlendra aðila aukist svo mjög að erlendur gjaldeyrir indverskra fjármálastofnana er í sögulegum hæðum.

Í skýrslunni segir að indverska hagkerfið sé viðkvæmt af þessum sökum en matsfyrirtækið er hæfilega bjartsýnt á að indverska ríkisstjórnin standist álagið með einkavæðingu ríkisfyrirtækja á næstu árum. Því hafi hins vegar verið ítrekað slegið á frest síðastliðin þrjú ár vegna mótstöðu vinstriflokka á indverska þinginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×