Viðskipti erlent

Murdoch býður í Wall Street Journal

Rupert Murdoch eigandi eins stærsta fjölmiðlaveldis í heimi hefur gert rúmlega 320 milljarða króna yfirtökutilboð í útgáfufélag Wall Street Journal.
Rupert Murdoch eigandi eins stærsta fjölmiðlaveldis í heimi hefur gert rúmlega 320 milljarða króna yfirtökutilboð í útgáfufélag Wall Street Journal.

Ástralski fjölmiðlamógúllinn Rupert Murdoch lagði á þriðjudag fram 5 milljarða dala óformlegt yfirtökutilboð í Dow Jones, útgáfufélag samnefndrar fréttaveitu og bandaríska viðskiptadagblaðsins Wall Street Journal. Tilboðið svarar til 320,7 milljarða íslenskra króna.

Tilboð Murdochs, sem hljóðar upp á 60 dali á hlut og tæpum fjórum dölum yfir lokagengi félagsins á þriðjudag, var gert hluthöfum bréfleiðis fyrir hálfum mánuði. Ekki var greint frá því opinberlega fyrr en á þriðjudag. Fréttirnar komu sem þruma úr heiðskíru lofti og keyrðu gengi bréfa í útgáfufélaginu upp um 55 prósent.

Fréttaveitan Bloomberg hefur eftir greinendum að Murdoch hafi með gjörningnum lagt línurnar fyrir yfirtökukapphlaup í útgáfufélagið. Geti svo farið að bandaríski raftækjaframleiðandinn General Electric, sem á bandarísku viðskiptasjónvarpsstöðina CNBC, og útgáfufélag bandaríska dagblaðsins Washington Post bætist hugsanlega í hópinn og bjóði á móti Murdoch.

Bancroft-fjölskyldan, sem á tæpan fjórðungshlut í Dow Jones og er stærsti hluthafi þess með 62 prósent atkvæðaréttar, hefur lýst yfir andstöðu sinni við tilboðið. Stjórn Dow Jones tók í sama streng á miðvikudag og lýsti því yfir að hún myndi ekki taka það til umfjöllunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×