Viðskipti innlent

Hannes krafði Einar um formannsstólinn

Hannes Smárason. FL Group og tengdir aðilar hafa styrkt eign sína í Glitni. Hannes vildi að stjórnin endurspeglaði valdahlutföllin í hluthafahópnum en aðrir hluthafar telja valddreifingu mikilvæga fyrir bankann.
Hannes Smárason. FL Group og tengdir aðilar hafa styrkt eign sína í Glitni. Hannes vildi að stjórnin endurspeglaði valdahlutföllin í hluthafahópnum en aðrir hluthafar telja valddreifingu mikilvæga fyrir bankann.

Deilur hafa verið uppi um stjórnarformennsku og valdahlutföll í bankaráði Glitnis. Fyrir aðalfund vildi FL Group auka hlut sinn í bankaráðinu og fá stjórnarformennsku. Samkomulag varð um að Einar Sveinsson gegndi starfinu áfram. Eftir kaup Baugs og Tom Hunter í Glitni voru FL Group og tengdir aðilar komnir með yfirhöndina í hluthafahópnum.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, krafðist þess að Einar Sveinsson segði af sér stjórnarformennsku og FL Group fengi stólinn. Við þessu brugðust aðrir stjórnarmenn en fulltrúar FL Group ókvæða og varð niðurstaðan óbreytt ástand.

Sjónarmið FL Group er að fyrir-tækið fái völd í bankaráðinu í samræmi við eign sína. Sjónarmið annarra stjórnarmanna er að stjórn bankans þurfi að endurspegla hluthafalýðræði og ekki sé gott fyrir bankann að ein fylking hluthafa fari með öll völd.

Forstjóri bankans hefur verið talsmaður slíks fyrirkomulags og samkvæmt heimildum er ekki um að ræða neinn ágreining innan bankaráðsins um stefnu eða stjórnun bankans.

Innan viðskiptalífsins má greina mismunandi sýn á átökin í bankanum. Sumir telja eðlilegt að valdahlutföll og eignarhlutur endurspeglist í bankaráðinu. Aðrir telja að einsleitt ákvörðunarvald í bankaráðinu kunni að rýra traust á bankanum og valda honum skaða. Því sé valddreifing í bankaráðinu heppileg. Í þeim hópi er framganga Hannesar talin lítt yfirveguð.

Bjarni Ármannsson forstjóri Glitnis, hefur verið við stjórnvölinn í bankanum í tíu ár. Samkvæmt heimildum er enginn vilji í stjórninni til annars en að hann stjórni bankanum áfram. Bjarni mun hins vegar líta svo á sjálfur að það muni hann ekki gera undir hvaða kringumstæðum sem er.

Bjarni styrkti sig verulega í sessi á síðasta ári þegar hart var sótt að íslenskum fjármálastofnunum. Hann hlaut fyrir það athygli utan landsteinanna. Eignarhlutur hans í bankanum nemur ríflega sex milljörðum króna og ekki talið að hann hafi áhyggjur af framhaldinu fyrir sig persónulega.

FL Group er fjárfestingafélag sem hefur stöðu eigna sinna til stöðugrar endurskoðunar. Samkvæmt eðli félagsins velta menn stöðugt fyrir sér nýjum félögum og tækifærum. Meðal þeirra hugmynda sem upp hafa komið var sameining Glitnis og Kaupþings. Þær vangaveltur hafa ekki komist af hugmyndastigi, enda þótt óvarlegt sé að útiloka að það gerist einhvern tímann síðar. Hjá stærstu eigendum Kaupþings er ekki mikill áhugi á því í augnablikinu.

Eins og staðan er telja menn engan djúpstæðan ágreining á ferðinni, enda ekki orðið vart mismunandi sýnar á framtíð bankans. Menn óttast þó að samstarfið hafi beðið einhverja hnekki sem tíminn leiði í ljós hvort jafni sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×