Viðskipti innlent

Jörmunkraftur í atvinnulífinu – en hvað svo?

Einkageirinn á Íslandi er nánast óþekkjanlegur frá því sem hann var fyrir örfáum árum. Atvinnufyrirtækin hafa aukist að afli og ný sprottið fram á fjölmörgum sviðum. Heilu atvinnugreinarnar hafa tekið stakkaskiptum og breytt landslaginu í efnahagslífinu.

Skýrt dæmi er fjármálageirinn sem skotist hefur fram úr sjávarútvegi á mælikvarða framlags til framleiðslu í landinu. Annað dæmi eru stórsókn til útlanda með glæsilegri útrás fyrirtækja víða um heim. Allt þetta hefur styrkt efnahag þjóðarinnar og styrkt stoðirnar undir hagsæld og lífsgæðum almennings.

Aðgerðir á stjórnmálavettvangi

Aukin hagsæld er knúin áfram af framtaki og ágóðavon. Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu skóp jarðveg fyrir sögulegum uppgangi í efnahagslífinu með afnámi viðskiptahafta og auknu frelsi til athafna. Sama gegnir um einkavæðingu opinberra fyrirtækja þótt framkvæmdina hafi mátt gagnrýna í sumum tilfellum.

Á stjórnmálavettvangi eru atvinnulífinu markaðar leikreglur til að tryggja samkeppnisstöðu og jafnan leik. Þar hefur margt vel tekist eins og ofangreind dæmi um efnahagssvæðið og einkavæðinguna sýna. Eins má nefna ýmsar skattbreytingar á borð við lækkun á tekjuskatti, afnám eignaskatts, og upptöku einfalds fjármagnstekjuskatts. Sterklega hlýtur að koma til álita að lækka hlutfall tekjuskatts félaga enn meir með það að markmiði að stækka skattstofninn og auka skatttekjur af atvinnustarfsemi eins og reyndin hefur orðið. Þannig má skapa færi á myndarlegri lækkun á tekjuskatti einstaklinga sem er löngu tímabær.

Fjármagnstekjuskattur er nógu hárÍ aðdraganda alþingiskosninga heyrast raddir um að hækka þurfi fjármagnstekjuskatt og er rökstutt með því að of mikið bil ríki milli hans og tekjuskatts af launatekjum. Væri þá ekki rétt að hækka skattinn? Já, af hverju ekki bara tvöfalda hann fyrst munurinn er svona mikill?

Von er að spurt sé, en hér þarf að hyggja vel að. Fjármagnstekjuskattur leggst á fjármagnstekjur brúttó og er þess vegna miklum mun hærri en hann virðist við fyrstu sýn. Fjármagnstekjum má almennt skipta í arð, vexti og leigu.

• Arður af hlutafé ber 26,2% skatt í ljósi þess að áður en 10% fjármagnstekjuskattur er lagður á hefur félagið greitt 18% tekjuskatt. Hlutaféð sem stendur undir arðinum er áhættu undirorpið og getur allt glatast eins og mörg dæmi eru um.

• Vaxtatekjur reiknast brúttó án frádráttarliða. Þetta þýðir að maður sem fær 10% vexti í 10% verðbólgu hefur í raun engar tekjur fengið af innstæðunni en þarf samt að borga tíunda hluta vaxtanna í skatt. Niðurstaðan er sú að hann þarf að ganga á eignina um sem næst 1% til að greiða skattinn.

• Leiga af fasteign ber sömuleiðis 10% skatt án frádráttarliða á borð við viðhaldskostnað og fasteignagjöld. Eigendum fasteigna er reiknuð leiga af eigninni (nema eigin íbúðarhúsnæði) jafnvel þótt engin leiga komi fyrir hana.

Eru þetta rök fyrir því að hækka þurfi fjármagnstekjuskatt?

Mörgum virðist sjást yfir að fjármagnstekjuskatturinn hefur verkað sem aflvaki í atvinnulífinu með því að hann hefur gert eigendum fyrirtækja kleift að selja þau án þess að greiða tekjuskatt eins og um launatekjur væri að ræða. Þetta hefur leitt til samruna fyrirtækja sem ekki hefði orðið að öðrum kosti og skapað sterkari rekstrar­einingar. Með þessu hefur fjármagnstekjuskatturinn án efa leitt af sér styrkara atvinnulíf í landinu. Fjármagnstekjuskattur skilar miklum tekjum í ríkissjóð sem gætu gufað upp eins og dögg fyrir sólu vegna þess hve skattstofninn er kvikur. Evran eða krónan?

Bersýnilegt er að verulegar efasemdir hafa gripið um sig meðal fyrirtækja og raunar líka almennings hvort krónan standi undir kröfum viðskiptalífsins um traustan gjaldmiðil. Nefnd á vegum Viðskiptaráðs Íslands um krónuna og atvinnulífið komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni í fyrra að um framtíðarskipan gengismála stæði valið á milli krónu og evru með aðild að myntbandalagi Evrópu. Með þeirri niðurstöðu var í raun spurningarmerki sett aftan við framtíð krónunnar.

Enginn vafi er á að gengismálin verða rædd ítarlega á komandi misserum. Brýnt er að varpa ljósi á þessa tvo kosti og færi vel á að þeir yrðu teknir út á vettvangi atvinnulífsins sjálfs með atbeina heildarsamtaka fyrirtækja og launafólks á þeim vettvangi. Fyrirtækin og fólkið eiga mestra hagsmuna að gæta.

Um þessar mundir bræða mörg fyrirtæki með sér val á uppgjörsmynt og kauphallarmynt. Ákvarðanir um þetta taka þau á viðskiptalegum forsendum. Varhugavert er að opinberir aðilar grípi til skyndiákvarðana sem trufla fyrirtækin að þessu leyti. Að sama skapi verður að telja heppilegast að erlendir aðilar skynji starfsumhverfi fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja á Íslandi á þann hátt að hér ríki stjórnfesta og stöðugleiki í regluverkinu.

Uppgangur áfram eða handbremsan?Miklu skiptir að atvinnu­fyrirtækin og almenningur megi treysta því að ný ríkisstjórn, hvaða stjórnmálaflokkar sem þar kunna að koma við sögu, beiti sér fyrir því að uppgangur atvinnulífsins megi halda áfram. Reynir þar á leikreglur fyrirtækja, skattalegt umhverfi, frjálsræði til athafna og samkeppnisstöðu. Greinilegt er að aðstæður eins og ríkt hafa í atvinnulífinu kalla á að háskólarnir útskrifi enn fleira fólk sem er fært um að takast á við krefjandi verkefni í síbreytilegu viðskiptalífi. Úrslit kosninganna gætu ráðið miklu um, hvort áfram verði gengið á braut hagsældar og almennrar velmegunar eða hvort ungt fólk þarf að vera uggandi um hvort störf bjóðist að námi loknu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×