Viðskipti innlent

Aðlögunarhæfni í farteskinu

Að halda ró sinni

Öll él birtir upp um síðir, segir máltækið. Óveðrið í íslensku fjármálalífi, sem hófst fyrir rúmu ári með endurskoðaðri einkunnagjöf Fitch Ratings vegna ríkissjóðs Íslands, gekk yfir á skömmum tíma.

Ástæða þess er fyrst og fremst sú að aðilar hér á landi sem gagnrýninni var beint að héldu ró sinni og tóku slaginn við mann og annan á eigin forsendum og á málefnalegan hátt. Og hér erum við, rúmlega 12 mánuðum síðar, komin framhjá skerjum og sumir með spánnýja ágætiseinkunn úr lánshæfismati, þrefalt A - fjórfalt húrra.

Þetta umrót fer í reynslubankann hjá mörgum. Menn vita þá hvaðan á þá stendur veðrið næst, eða hvað? Ekki gott að segja, en það kemur óveður aftur, það má a.m.k. fullyrða á þessari stundu. Hafandi sagt þetta liggur beint við að nálgast kjarna umræðunnar; aðlögunarhæfni par excellence.

Að læra af mistökunum

Frá því að Seðlabanki Íslands hóf vaxtahækkunarferli sitt á vormánuðum 2004 og þar til hann taldi nóg að gert í bili, í desember sl., höfðu stýrivextir bankans verið hækkaðir 18 sinnum, samtals um tæp 9%. Þetta eru margar hækkanir og breyting úr 5,30% stýrivöxtum í 14,25% er töluverð hækkun. En þetta eru engu að síður aðeins 0,30% á mánuði í þessa 30 mánuði sem hækkunarferlið stóð yfir og 0,50% að meðaltali í hvert sinn sem vextir voru hækkaðir. Engin stök vaxtahækkun á tímabilinu var hærri en 1%, en fleiri en eitt og fleiri en tvö dæmi um 0,25% hækkun og fyrsta skrefið var hófleg 0,20% hækkun.

Á sama tíma mældist verðbólga yfir markmiðum sem sett voru þegar horfið var frá fastgengisstefnu og gengi ISK sett á flot í mars 2001. Og verðbólgan hefur reyndar vaxið jafnt og þétt á umræddu tímabili vaxtahækkana.

Sá er þetta skrifar telur að Seðlabankinn hefði átt að bregðast mun fyrr við og af meiri krafti; hækka í mun stærri og færri skrefum en varð raunin. Þetta er frábær niðurstaða úr baksýnisspeglinum og undirritaður reiknar ekki með að fá nóbelinn í hagfræði. Það vill svo skemmtilega til að seðlabanki USA fór í gegnum vaxtahækkunarferli frá miðju ári 2004 fram á síðari hluta ársins 2006 og bankinn hækkaði sína vexti 17 sinnum; úr 1% í 5,25% eða 0,25% að meðaltali í hvert sinn sem vextir voru hækkaðir - hljómar aðeins kunnuglega.

Að horfa fram á veginn

Forsvarsmenn Seðlabanka Íslands myndu vafalítið fara að með öðrum hætti ef þeir ættu kost á að renna sér aftur í gegnum nýafstaðið vaxtahækkunarferli, en það gildir reyndar um margan og margt í lífinu - menn breyta öðruvísi reynslunni ríkari. Undirritaður gerir ekki heldur ráð fyrir að hreppa nóbelinn í félagsfræði.

Nú blasir sú staðreynd við að verðbólga sem mælst hefur langt yfir þolmörkum um langt skeið er á hraðri niðurleið. Að mestu leyti vegna þess að vextir eru nú loksins allháir fyrir tilstuðlan Seðlabankans, en ekki bankanna, sem er þrautseigur misskilningur. Þessir háu vextir virðast hafa þau ótrúlegu áhrif að draga kraftinn úr kaup- og fjárfestingagleði landans. Þannig mælist verðbólga sl. þriggja mánaða vera 1,4% á ársgrundvelli og -2,9% (verðhjöðnun) á ársgrundvelli ef húsnæðisliður vísitölunnar er skilinn frá. Í þessum nýjustu verðbólgumælingum eru komin fram áhrif til lækkunar vegna skattkerfisbreytinga. Það gæti verið freistandi að hefja lækkun stýrivaxta fljótlega, í varfærnu fyrsta skrefi upp á 0,20%, eða með ákveðinni og stefnumarkandi 1% lækkun - eins og undirritaður hefur komið inn á í eldri greinaskrifum, þá er hlutverk Seðlabankans ekki öfundsvert.

Að snúa bökum saman

En eins og áður sagði þá eru margir í þeirri kjörstöðu að geta lært af mistökum. Ríkissjóði Íslands og þeim sem halda um taumana þar á bæ hefur verið legið á hálsi að ganga ekki í takt við banka bankanna - þetta kom m.a. fram í gagnrýni erlendra matsfyrirtækja fyrir rúmu ári og var reyndar eitt af því fáa sem rétt var að gefa nánari gaum.

Og sveitarfélögin í landinu, þau verða ekki undanskilin í umræðunni um stjórn útgjaldaaukningar. Oft er þörf aðhalds í umfangsmiklum framkvæmdum á þeirra vegum, eins og hægt er að koma því við. Sem sagt, áralagið hjá Seðlabankanum og ríkissjóði og sveitarfélögunum hefur á stundum þótt nokkuð ósamhæft. Og nýlegar ráðstafanir hafa þótt kyndugar, þrátt fyrir ítarlega umræðu og ábendingar - en lærir meðan lifir.

Að gefa eftir með reisn

Að þrjóskast endalaust við er vandamál - að gefa eftir á viðeigandi hátt á réttum tímapunkti er algjör snilld. Stjórnvöld hér á landi eins og annars staðar hafa því mikilvæga hlutverki að gegna að varða veginn eins samhliða þjóðfélagsbreytingum og kostur er til að lágmarka aðlögunartíma. Fari stjórnvöld of geyst í þessum efnum er hætt við að aðilum sé beint inn á brautir sem þeir annars hefðu ekki valið sér að fara. Þróun í íslensku atvinnulífi og nýjar áherslur samhliða þeim breytingum hafa gerst á stuttum tíma.

Það hefur vafalítið oft verið vandasamt verk fyrir stjórnvöld og opinberar eftirlitsstofnanir að halda í við fyrirtæki og athafnafólk. En það er bara einn kostur í stöðunni; að halda áfram veginn. Falli stjórnvöld í þann farveg að reyna að tosa aðila til baka, þó ekki sé nema bara til að vinna tíma, svo ekki sé talað um að reyna að beina þeim inn á brautir sem þeir hefðu með engu móti kosið sér sjálfir, þá er illt í efni.

Stjórnvöldum er falið gríðarlegt vald, sem felst í setningu laga og reglugerða, t.d. um fjármálamarkaðinn sem hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg frá því lokið var við einkavæðingu ríkisbankanna. Stjórnvöld hafa í raun það hlutverk að ramma inn hvers kyns starfsemi á víð og dreif um allt þjóðfélagið, en það verður að vera einfalt og fljótlegt að skipta um ramma. Það er mikilvægt að stjórnvöld og stofnanir á þeirra vegum átti sig á vélbúnaðinum um borð í þjóðarfleyinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×