Viðskipti innlent

Sautján útskrifast úr skóla SÞ

Sautján nemendur frá þrettán þróunarlöndum luku námi við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku.
Sautján nemendur frá þrettán þróunarlöndum luku námi við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku. MYND/Vilhelm

Í síðustu viku útskrifuðust sautján nemendur úr Sjávarútvegs-skóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur er hér á landi. Nemendurnir í ár voru frá Kenía, Tansaníu, Srí Lanka, Úganda, Grænhöfðaeyjum, Íran, Kína, Malasíu, Kúbu, Vanúatú, Tonga, Namibíu og Máritíus. Allir hafa þeir dvalið hér frá því í september en snúa nú hver af öðrum aftur til starfa í heimalöndum sínum.

 

Nordina Din frá Malasíu. Nordina var valin úr hópi malasískra umsækjenda til að stunda nám við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið sem hún vann að snerist um að greina rekstur svæðasamtaka veiðimanna í Malasíu. Hún starfar sem endurskoðandi hjá Hafrannsóknastofnun Malasíu. Þar mun hún halda áfram að vinna að verkefninu í því miði að bæta arðsemi samtaka veiðimanna.

Þeir nemendur sem koma til náms í Sjávarútvegsskólanum eru iðulega fagfólk með reynslu af störfum við rannsóknir, stjórnsýslu og rekstur á sviði veiða og sjávarútvegs. Í náminu felast inngangsnámskeið, sérfræðinámskeið og hagnýtt lokaverkefni. Mikil áhersla er lögð á að þegar náminu lýkur snúi nemendur aftur til heimalandsins með þekkingu sem nýtist þeim sjálfum, fyrirtækjunum sem þeir starfa hjá og þjóðfélaginu í heild.

 

Xiaojie Nie frá Kína Hluti af námi Xiaojie Nie hjá Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna var að gera markaðsáætlun fyrir Icelandic Group í Kína. Hún hefur unnið að því að greina kínverska markaðinn fyrir félagið sem hefur hug á að hefja smásölu á Kínamarkaði. Meðal þess sem hún hefur ráðlagt Icelandic Group er að markaðssetja reyktan lax í Kína. Kínverjar hafi smekk fyrir feitum og bragðmiklum fiski.

Sjávarútvegsskóli SÞ hóf starfsemi í upphafi ársins 1998. Hann er starfræktur af Hafrannsókna-stofnun í samstarfi við Rannsókna­stofnun fiskiðnaðarins (MATÍS), Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Alls hafa nú 145 nemendur frá 25 löndum lokið námi við skólann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×