Viðskipti erlent

Storebrand fór fram úr spám

Storebrand við Aker-brygge í Osló Hagnaður fór fram úr spám sérfræðinga.
Storebrand við Aker-brygge í Osló Hagnaður fór fram úr spám sérfræðinga.

Hagnaður norska fjármálafyrirtækisins Storebrand Group nam 1.469 milljónum norskra króna eftir skatta í fyrra sem eru um 17,4 milljarðar króna. Þar af var hagnaður félagsins, sem er að níu prósentum hluta í eigu Kaupþings, rúmir 5,8 milljarðar á fjórða ársfjórðungi.

Hlutabréf í Storebrand hækkuðu í kjölfarið, enda var afkoma fjórða ársfjórðungs um 24 prósentum umfram spár markaðsaðila. Hagnaður jókst um 7,2 prósent á milli ára.

Arðsemi eiginfjár var nítján prósent á síðasta ári.

Storebrand selur að stærstum hluta líftryggingar og lífeyrissparnað en fæst einnig við aðra tryggingastarfsemi, fjárfestingar og bankarekstur. Hagnaðaraukning er einungis tilkomin vegna fjárfestingastarfseminnar þar sem hagnaður jókst um 550 prósent á milli ára.

Um 15.500 fyrirtæki, sem eru með 200 þúsund starfsmenn í vinnu, eru í viðskiptum við Storebrand.

Heildareignir samstæðunnar voru um 2.430 milljarðar króna í lok árs og hækkuðu um tíu prósent á milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×