Viðskipti innlent

Versni horfur hækka vextir

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. Mynd/Heiða

Seðlabankinn víkur sér ekki undan því að hækka stýrivexti enn frekar versni verðbólguhorfur, að sögn Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra. Bankastjórnin kynnti í gær ákvörðun sína um að stýrivextir skuli vera óbreyttir í 14,25 prósentum enn um sinn.

„Verðbólga hefur hjaðnað og verðbólguhorfur til skamms tíma batnað og eru nú betri en gert var ráð fyrir í síðustu spá bankans. Verðbólga er þó enn sem fyrr langt yfir verðbólgumarkmiði bankans," segir Davíð og telur núverandi vexti kunna að duga til þess að verðbólgumarkmiði verði náð á ásættanlegum tíma.

Davíð segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hversu hratt stýrivextir verði lækkaðir þegar efnahagslegar forsendur heimili slíkar aðgerðir. „Bankinn hefur ekki tekið neina ákvörðun um að vaxtalækkunarferill sé hafinn heldur horfir til þess að enn er víða undirliggjandi þrýstingur og ójafnvægi í þjóðarbúskapnum," segir hann. Helst er horft til þess að gríðarlegur viðskiptahalli feli í sér að stöðugleiki krónunnar sé háður vilja alþjóðlegra fjárfesta og lánardrottna til að fjármagna hann. „Reynslan sýnir að jafnvel hóflegar breytingar á alþjóðlegum fjármálaskilyrðum geta valdið verulegum sveiflum á gengi gjaldmiðla. Leiddu slíkar breytingar til lækkunar á gengi krónunnar myndu verðbólguhorfur versna á ný."

Þá telur Davíð ekki hægt að leggja mál upp með þeim hætti að bankinn óttist að fara inn í næstu uppsveiflu með hátt stýrivaxtastig. „Bankinn vill auðvitað gjarnan hafa náð markmiðum sínum þegar og ef til nýrrar uppsveiflu kemur," segir hann, en bendir á að fyrst og fremst sé bankinn að fást við horfurnar eins og þær blasi við nú. Þannig er til dæmis ekki tekið tillit til stækkunar álversins í Straumsvík, enda eiga Hafnfirðingar enn eftir að kjósa um hana. „Það gæti hins vegar verið hagfellt fyrir efnahagslífið okkar að næsta uppsveifla kæmi á hóflegum hraða," segir Davíð.

Seðlabankinn birtir næstu ákvörðun um stýrivexti 29. mars, samhliða birtingu þjóðhags- og verðbólguspár í Peningamálum, efnahagsriti bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×