Viðskipti innlent

Uppgjörssveiflur á gengi íslenskra hlutabréfa

Gylfi Magnússon segir líklegustu skýringuna á sveiflum á gengi hlutabréfa í íslenskum fyrirtækjum þá að markaðsaðilar sjái sér hag í að auka vægi hlutabréfa í eignasöfnum sínum rétt fyrir mánaða-, ársfjórðungs- og áramót.  
Markaðurinn/Pjetur
Gylfi Magnússon segir líklegustu skýringuna á sveiflum á gengi hlutabréfa í íslenskum fyrirtækjum þá að markaðsaðilar sjái sér hag í að auka vægi hlutabréfa í eignasöfnum sínum rétt fyrir mánaða-, ársfjórðungs- og áramót. Markaðurinn/Pjetur

Ávöxtun hlutabréfa sem skráð eru í Kauphöll Íslands bera ákveðin sérkenni um hver mánaðamót, ársfjórðungamót og um áramót. Bréfin hækka að jafnaði umtalsvert í verði síðasta viðskiptadag hvers mánaðar en lækka svo aftur á fyrsta viðskiptadegi næsta mánaðar á eftir.

Þessi þróun á gengi hlutabréfa kemur skýrar fram við ársfjóðungamót og enn betur við áramót, að mati Gylfa Magnússonar, dósents við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, í erindi sem hann hélt um málið á opnum fundi í síðustu viku.

Gylfi benti á í erindi sínu að sveiflur á gengi hlutabréfa við mánaðamót væru vissulega sérkennileg. Íslenska mynstrið væri þó ekki algengt, að mati Gísla, sem engu að síður áréttaði að engar erlendar rannsóknir á hlutabréfamörkuðum hefðu leitt í ljós sambærilegt sveiflumynstur á milli tímamóta og hérlendis. Ein skýringanna geti legið í því að aðilar á markaðnum sjái sér hag í að ýta verði hlutabréfa upp rétt fyrir uppgjörstímabil. Þó megi skýra sveiflurnar með því að einhverjir aðilar sjái sér hag í því að auka vægi hlutabréfa í söfnum sínum á þessum mótum mánaða, árfjórðunga og fyrir áramót, að hans sögn.

Þá vitnaði Gylfi til tveggja erlendra rannsókna frá níunda áratug síðustu aldar, sem leitt hefðu í ljós að sérkennileg verðþróun hlutabréfa beggja vegna mánaðamóta hefði verið lengi til. Í Bandaríkjunum hefði komið fram mikill munur á gengi bréfa hvort heldur er á síðasta viðskiptadegi mánaðamóta eða á fyrsta degi eftir að nýr mánuður gengur í garð. Þá sýni önnur rannsókn að mikil umframávöxtun, sem valdi muninum, komi yfirleitt fram á styttri tíma, iðulega á síðasta viðskiptadegi fyrir mánaðamót og á fyrstu þremur dögum eftir mánaðamót.

Fleiri hafa bent á álíka sveiflur á erlendum mörkuðum, að sögn Gylfa sem benti á niðurstöður rannsóknar sem tók á gengisþróun bréfa á hlutabréfamörkuðum í 19 löndum. Þar komi meðal annars fram að finna megi merki um að umframávöxtun bréfa við hver mánaðamót á 15 þeirra en þar kom 87 prósent allrar ávöxtunar fram á fjórum viðskiptadögum eftir mánaðamótin.

Gylfi taldi til ýmsar skýringar á þessum sveiflum á gengi hlutabréfa. Meðal annars megi skýra þær sem „gluggaskreytingar“ í verðbréfasöfnum, markaðsmisnotkun og sveiflur í fjárflæði vegna uppgjörsvenja. Þá eigi sveiflurnar sér öllu eðlilegri skýringar, svo sem skattalegar. Síðasttalda skýringin eigi þó einkum við um áramót, að mati Gísla.

Gylfi benti reyndar á að ein rannsókn hefði leitt í ljós að ein skýringanna á sveiflum á hlutabréfamörkuðum mætti rekja til þess að gengi bréfa á markaði hefði verið ofmetið í lok hvers ársfjórðungs, ekki síst undir lok árs. Eftir mótin leiðréttist gengið og því lækki það eðlilega.

Að sögn Gylfa hefur þó ein rannsókn leitt í ljós að algengt sé á erlendum hlutabréfamörkuðum að að virði hlutabréfa í fyrirtækjum með lítið markaðsvirði hækki mikið á síðasta degi ársfjórðungs. Eftir því sem markaðsvirði bréfa í fyrirtækinu sé meira því minni sé hækkunin. Benti Gunnar á að það væri sterkt vísbending um að sjóðstjórar væru að breyta verði bréfa sér í hag í blálokin á hverju uppgjörstímabili. Setji þeir inn kauptilboð í bréf fyrirtækja sem auðvelt sé að hreyfa við með það fyrir augum að þoka lokagengi þeirra upp á við og þar með verðmati á fyrirtækjum, sem eru í eigu sjóðanna. Þreifingar sem þessar hafa hins vegar verið bannaðar með lögum víða um heim, meðal annars í Bandaríkjunum og hér á landi, að sögn Gylfa.

Hann bendir þó á að ef skýringin á því að ávöxtun markaða er óvenjugóð rétt fyrir lok uppgjörstímabila liggur í því að markaðsaðilar sjá sér hag í að ýta verðinu upp þá væri við því að búast að það gerðist einkum skömmu fyrir lokun markaða. Svo virðist þó ekki vera því mikil ávöxtun rétt fyrir mánaðamót eða ársfjórðungamót virðist ekki rekjanleg til hækkunar á gengi bréfa í fyrirtækjum hér rétt fyrir lokun markaða viðkomandi dag. Hækkunin er hins vegar langmest rétt eftir opnun markaða og sé því skýringin á hækkuðu gengi ekki vera sú að markaðsaðilar freistist til að senda inn hagstæð kauptilboð rétt fyrir lokun.

Á íslenskum hlutabréfamarkaði skera dagarnir fyrir hver mánaðamót, ársfjórðungamót og áramót sig frá öðrum viðskiptadögum hvað veltu varðar. Á síðasta viðskiptadegi fyrir tímamótin sé veltan að jafnaði um 77 prósentum meiri en aðra daga. Síðasti dagur fyrir hvern ársfjórðung sker sig hins vegar úr því þá eykst veltan um 235 prósent.

Dagurinn eftir mánaðamót, ársfjórðungamót og áramót er hins vegar öllu rólegri hér og jafnvel minni en á meðaldegi.

Hvað áramót varðar snýr málið skemmtilega við hvað íslensk hlutabréf varðar. Á fyrsta viðskiptadegi á nýju ári lækkar gengi hlutabréfa í þrefalt fleiri íslenskum fyrirtækjum en daginn fyrir áramót en það er sama hlutfall fyrirtækja og horfðu á hækkun bréfa fyrir áramótin. Munurinn er hins vegar sláandi þegar ársfjórðungamót eru skoðuð. Einungis fimm fyrirtæki hafa að meðaltali lækkað síðasta viðskiptadag fyrir ársfjórðungamót en 33 hækkað.

Á móti hefur gengi bréfa í 31 fyrirtæki lækkað að meðaltali fyrsta viðskiptadag eftir ársfjórðungamót en einungis átta hækkað, að sögn Gylfa sem bendir á að ekki virðist neinn augljós munur á verðþróun um mánaðamót eftir því hvort fyrirtæki eru í Úrvalsvísitölunni eða ekki.

Helsta skýring Gylfa á sveiflum á markaðsvirði íslenskra fyrirtækja var sú að líklega sæju einhverjir markaðsaðilar sér hag í að auka vægi hlutabréfa í eignasöfnum sínum rétt fyrir mánaðamót og þó sérstaklega ársfjórðunga- eða áramót og skýrði það breytingarnar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×