Viðskipti erlent

Afkoma Ryanair tekur flugið

Ryanair Michael O‘Leary, forstjóri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair, hefur ástæðu til að gleðjast enda var hagnaður flugfélagsins talsvert yfir væntingum greinenda.
Ryanair Michael O‘Leary, forstjóri írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair, hefur ástæðu til að gleðjast enda var hagnaður flugfélagsins talsvert yfir væntingum greinenda. MYND/AFP

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

skrifar

Írska lággjaldafyrirtækið Ryanair skilaði 47,7 milljóna evra hagnaði á þriðja rekstrarfjórðungi félagsins, sem endaði í desember í fyrra. Þetta jafngildir tæpum 4,3 milljörðum íslenskra króna sem er 30 prósenta aukning á milli ára. Búist var við minni hagnaði vegna síaukins eldsneytiskostnaðar í fyrra.

Á sama tíma árið 2005 skilaði flugfélagið 36,8 milljónum evrum í hagnað, eða tæpum 3,3 milljörðum íslenskra króna.

Tekjur flugfélagsins námu 493 milljónum evra, 44 milljörðum íslenskra króna, á tímabilinu, sem er 33 prósenta hækkun á milli ára.

Fréttaveitan Bloomberg segir Ryanair hafa hækkað ýmis gjöld á farþega á síðasta ári og tekist að koma þannig til móts við aukinn rekstrarkostnað vegna hækkunar á eldsneytisverði og fleiri liðum.

Bloomberg segir afkomuna á fjórðungnum langt umfram spár greinenda en meðalspá þeirra hljóðaði upp á 21 milljónar evra hagnað, sem svarar til tæplega 1,9 milljarða íslenskra króna.

Þá fjölgaði farþegum sem flugu með vélum lággjaldaflugfélagsins talsvert á milli ára. Farþegar voru 10,25 milljónir talsins á síðustu þremur mánuðum nýliðins árs en það er 19 prósenta aukning frá árinu á undan.

Michael O’Leary, forstjóri Ryanair, segist búast við enn betri afkomu á þessu ári vegna lækkunar á eldsneytisverði. Gerir hann ráð fyrir að hagnaðurinn muni nema allt að 390 milljónum evra, 34,8 milljörðum íslenskra króna, sem er 40 milljónum evrum meira en fyrri afkomuspá flugfélagsins hljóðaði upp á.

Flugfélagið vinnur enn að óvinveittri yfirtöku á írska flugfélaginu Aer Lingus. Lítið hefur hins vegar þokast í málinu. Haft hefur verið eftir O‘Leary að svo geti farið að Ryanair leggi fram nýtt yfirtökutilboð í flugfélagið í maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×