Viðskipti erlent

Fór úr nærfötunum fyrir Baug

Bleik nærföt
Bleik nærföt

Michael Ross, einn af stofnendum bresku netverslunarinnar FigLeaves.com, sem er leiðandi í sölu á undirfötum fyrir karla og konur á netinu, er kominn til starfa hjá Baugi í Bretlandi.

Breska dagblaðið Telegraph segir hlutverk Ross hjá Baugi vera að efla ásýnd fyrirtækisins í netheimum og efla netverslun fyrirtækja á borð við Hamleys, House of Fraser og Whittard of Chelsea. Blaðið leggur þó áherslu á að ekki liggi fyrir hvort Ross hafi verið fastráðinn í stöðuna eða hafi verið fenginn tímabundið inn til höfuðstöðva Baugs við Bond Street í Lundúnum til að ráðgjafastarfa.

Að sögn Telegraph eru þessi skref mesta umbyltingin í rekstri verslanakeðjanna eftir að þær færðust undir hatt Baugs.

Ross þessi þykir mikill reynslu­bolti í rekstri netverslana en hann hefur rekið nokkrar slíkar allt frá því skömmu fyrir aldamót.

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá Baugi í Bretlandi, segir hlutverk Ross vera að vinna með fyrirtækjum Baugs í Bretlandi og leggja til ráð varðandi uppbyggingu á netverslunum. „Það er okkar markmið að ná verulegri aukningu í netverslun og að eftir tvö til þrjú ár verði verulegur hluti af veltu fyrirtækjanna okkar á netinu,“ segir Gunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×