Viðskipti innlent

Þegar umsækjendum er hafnað

Sif Sigfúsdóttir, MA í mannauðsstjórnun.
Sif Sigfúsdóttir, MA í mannauðsstjórnun.

Mikilvægt er að þeir sem ekki hafa verið valdir til starfa en hafa sótt um starf fái heiðarlegt höfnunarbréf, símtal eða tölvupóst. Þeir umsækjendur sem ekki verða fyrir valinu og fá hvorki skriflegt né munnlegt svar við umsóknum upplifa oft sterka höfnun.

Í mörgum tilfellum hafa umsækjendur sent persónuleg gögn eins og einkunnir og ferilskrá til ráðningaraðila og vita oft ekkert hvað verður af gögnunum. Bréf eða tölvupóstur getur verið mikil hjálp fyrir þá sem velta fyrir sér hvers vegna þeir urðu ekki fyrir valinu og hvers vegna enginn boðaði þá í viðtal.

Í greininni Life’s Work í dagblaðinu New York Times kemur fram að helsta form höfnunar hjá mörgum fyrirtækjum í dag sé þögnin ein. Talið er að sárafá fyrirtæki hugsi um ferli höfnunar og er ferlinu líkt við lélegt stefnumót, þar sem umsækjandi situr og bíður við síma eftir símtali sem aldrei kemur. Nokkrum mánuðum seinna er svo e.t.v. hringt í umsækjanda þegar fyrirtækið er í uppsveiflu og þarf á starfsmanninum að halda. Í greininni er ítrekað mikilvægi þess að hringja í umsækjendur eða senda þeim bréf í tíma, hvort sem um ráðningu eða höfnun er að ræða.

Upplifun umsækjenda gagnvart fyrirtæki skiptir máli við höfnunarferli. Ferli og viðmót sem umsækjandi upplifir við ráðningarferlið getur mótað sýn hans til fyrirtækisins og sýn almennings er fyrirtækinu mikilvæg.

Þá er vert að hafa í huga að þeir umsækjendur sem fá höfnun gætu verið framtíðarstarfsmenn fyrirtækisins eða jafnvel yfirmenn þess seinna meir.

Mörg fyrirtæki standa sig vel í að senda bréf eða tölvupóst til þeirra sem er hafnað. Sum fyrirtæki senda stöðluð bréf á alla en önnur hafa látið hanna sérstök bréf þar sem innihald textans er úthugsað. Höfnunarbréf án réttlætingar og skýringar eru litin neikvæðari augum af umsækjendum en þau bréf sem gefa umsækjendum nánari skýringar. Því lengri tími sem líður án svars, því meiri gremju og ósanngirni fyllist umsækjandi. Til þess að koma í veg fyrir þetta þarf að senda öllum umsækjendum bréf tímanlega með viðeigandi upplýsingum.

Sif Sigfúsdóttir,

MA í mannauðsstjórnun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×