Viðskipti erlent

Microsoft og Ford bæta ökumenningu

Alan Mulally, forstjóri Ford, ræðir við Bill Gates, stofnanda og stjórnarformann Microsoft, á ráðstefnu Ford þegar hulunni var svipt af samstarfinu um helgina.
Alan Mulally, forstjóri Ford, ræðir við Bill Gates, stofnanda og stjórnarformann Microsoft, á ráðstefnu Ford þegar hulunni var svipt af samstarfinu um helgina. MYND/AFP

Bandaríski bílaframleiðandinn Ford og hugbúnaðarrisinn Microsoft kynntu í síðustu viku hugbúnað í bíla sem gerir ökumönnum kleift að raddstýra ýmsum rafbúnaði í bílum sínum, svo sem spilurum og farsíma.

Hugbúnaðurinn skilur þrjú tungumál en með honum getur ökumaður greint frá því hvaða lög hann vill heyra í græjum á borð við iPod-spilara og í hverja farsíminn á að hringja í. Búnaðurinn verður innbyggður í tólf nýjar bílategundir undir merkjum Ford sem koma á markað á þessu ári.

Að sögn stjórnenda bandarísku bílasmiðanna er mikil eftirspurn eftir handfrjálsum tækjabúnaði á borð við þennan í bíla vestanhafs og sér fyrirtækið fram á að geta plægt geysistóran markað fyrir tæknina í Bandaríkjunum til að byrja með.

Tækjabúnaðurinn, sem nefnist Sync, þykir vera ágætt viðbragð Microsoft til að stækka markaðshlutdeild sína og sækja á nýja markaði utan tölvugeirans. Á móti kemur að Ford þykir hafa landað ágætu tækifæri til að bæta afkomu sína á bandaríska bílamarkaðnum, sem hefur dregist nokkuð saman síðastliðin ár. Aðrir bílaframleiðendur munu vera að vinna að innleiðingu svipaðrar tækni í bíla sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×