Viðskipti erlent

Slóvenar ánægðir með nýjar evrur

Fjármálaráðherra Slóveníu flaggar hinni nýju mynt landsmanna sem tóku upp evrur úr veskjum sínum um áramótin.
Fjármálaráðherra Slóveníu flaggar hinni nýju mynt landsmanna sem tóku upp evrur úr veskjum sínum um áramótin. MYND/AFP

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson

skrifar

Slóvenar gengu formlega í myntbandalag Evrópusambandsins á nýársdag og varð Slóvenía 13. landið af 27 aðildarríkjum ESB til að taka upp evru sem gjaldmiðil. Slóvenía er eina landið af þeim tíu löndum sem gengu í myntbandalagið fyrir þremur árum til að taka upp evrur.

Að sögn Seðlabanka Slóveníu hefur innleiðing evrunnar gengið mjög vel fram til þessa en landsmenn hafa fram til mánudags í næstu viku til að venjast evrunni sem gjaldmiðli. Þá verða þeir að leggja tólarnum, gjaldmiðli sínum, og taka upp hinn nýja gjaldmiðil. Landsmenn eru ekki óvanir umskiptum á gjaldmiðlum því Slóvenar tóku upp tólarinn árið 1991 þegar þeir lýstu yfir sjálfstæði frá fyrrum Júgóslavíu.

Þá eru Slóvenar síður en svo ókunnir evrum því margir landsmenn fara í verslunarferðir til Ítalíu og Austurríkis, sem eru með evrur. Þá hafa stjórnvöld í Slóveníu hægt og bítandi vanið landsmenn við nýja gjaldmiðilinn allt frá mars á síðasta ári með verðlagningu vara í báðum gjaldmiðlum.

Andrej Bajuk, fjármálaráðherra Slóveníu, segir vonir standa til að umskiptin hafi jákvæð áhrif á efnahagslífið og lífskjör landsmanna. Taldi hann breytingarnar geta gengið yfir á næstu sex til tólf mánuðum.

Bajuk sagði ennfremur að innganga Slóvena í myntbandalag ESB sýndi fram á styrka efnahagsstöðu landsins miðað við hin löndin á Balkanskaganum.

Geti svo farið að Slóvenar verði fyrirmynd þeirra nágrannalanda, sem horfi til þess að taka upp evruna. Rúmenar og Búlgaría, sem gengu í ESB á síðasta ári, hafa sömuleiðis sótt um aðild að myntbandalaginu. Að sögn Bajuks þurfa stjórnvöld landanna hins vegar að taka sig á í peningamálastjórn ætli þau að uppfylla strangar kröfur myntbandalagsins og taka upp evruna sem gjaldmiðil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×