Viðskipti erlent

Lán Landsbankans meðal þeirra bestu

Skuldabréfaútgáfa Landsbankans á Bandaríkjamarkaði upp á jafnvirði 158 milljarða íslenskra króna í ágúst í fyrra er á lista fagtímaritsins Credit Magazine, einu stærsta tímariti heims um fjármála- og skuldabréfamarkaði, yfir bestu lántökur síðasta árs.

Í rökstuðningi tímaritsins fyrir útnefningunni segir að skuldabréfaútgáfa bankans hafi boðað breytta tíma fyrir íslenska banka sem fyrr á árinu hafi sætt neikvæðri gagnrýni matsaðila. Ennfremur segir í rökstuðningnum að tímaritið hafi valið lántökur, sem hafi verið vinsælar á meðal fjárfesta, sem gengu vel á erfiðum mörkuðum og hafi valdið straumhvörfum.

Þá er bent á að lántakan hafi borið vott um gott aðgengi Landsbankans að fjármálamörkuðum þrátt fyrir umrót í umhverfi íslensku bankanna í fyrra og staðfest mikið traust skuldabréfafjárfesta á Landsbankanum og langtímastefnu hans.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að skuldabréfaútgáfan, sem var hluti af reglulegri endurfjármögnun bankans, hafi verið í samvinnu við Bank of America, Citigroup og Deutsche Bank. Upphaflega hafi staðið til að gefa út skuldabréf fyrir einn milljarð dala en vegna mikillar eftirspurnar hafi fjárhæðin verið aukin í 2.250 milljónir dala.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×