Viðskipti erlent

Kauphallir gjóa augum hver á aðra

Robert Greifeld, forstjóri Nasdaq. Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn Nasdaq tryggði sér 28,75 prósent hlutafjár í LSE með það fyrir augum að koma í veg fyrir yfirtöku bandarísku kauphallarinnar í New York (NYSE) í markaðinn.
Robert Greifeld, forstjóri Nasdaq. Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn Nasdaq tryggði sér 28,75 prósent hlutafjár í LSE með það fyrir augum að koma í veg fyrir yfirtöku bandarísku kauphallarinnar í New York (NYSE) í markaðinn. MYND/AFP
Síðasta ár einkenndist af tilraunum hlutabréfamarkaða til að renna saman í eina sæng. Barist um bretland
John Thain, forstjóri NYSE Samruni bandarísku kauphallarinnar í New York (NYSE) og samevrópska hlutabréfamarkaðarins Euronext var samþykktur á síðasta ári. Markaðurinn/AFP

Yfirtökutilraunir og samrunar kauphalla í Evrópu settu mark sitt á viðskiptafréttir liðins árs. Árið hófst með áframhaldandi tilraunum kauphalla til að sameinast Kauphöllinni í Lundúnum í Bretlandi (LSE). Í janúar endurtók ástralski fjárfestingabankinn Macquire leikinn frá því í desember árið áður og gerði ríflega 166 milljarða króna yfirtökutilboð í öll hlutabréf LSE.

Tilraunin tókst ekki enda stóð Carla Furse, forstjóri LSE, fast á sínu að tilboðið væri of lágt og endurspeglaði ekki raunverulegt virði markaðarins, sem hún taldi víst að myndi stækka á næstu árum.

Furse sat við sama keip þegar bandaríski hlutabréfamarkaðurinn Nasdaq lagði fram 336 milljarða króna yfirtökutilboð í markaðinn í marsmánuði. Lítið lá hins vegar fyrir um framtíðarhorfur LSE, einnar elstu kauphallar Evrópu. Ákvörðun Furse að skella skollaeyrum við gylliboðum annarra kauphalla gladdi hins vegar hluthafa bresku kauphallarinnar því þráfaldleg tilboð í hana hefur keyrt gengi hennar upp á við.

Stjórn Nasdaq ákvað að draga tilboðið til baka undir lok mars. Um hálfum mánuði síðar lagði bandaríski sjóðurinn svo fram trompið er hann greindi frá því að hann hefði gert samkomulag við einn stærsta hluthafa LSE og tryggt sér rétt rúma 38 milljón hluti í markaðnum sem jafngildir 15 prósent hlutabréfaeignar.

Hlutafjáreignin í LSE jókst hægum skrefum og undir lok nóvember hafði Nasdaq nælt sér í 28,75 prósent hlutafjár í LSE. Markmiðið með kaupunum var af tvennum toga. Í fyrsta lagi var Robert Greifeld, forstjóri Nasdaq, nú með ívið meira vægi í hluthafahópnum en áður og gat þrýst á um samruna markaðanna. Í öðru lagi komu kaupin í veg fyrir að John Thain, sem stýrir bandarísku kauphöllinni í New York (NYSE), gæti borið víurnar í bréf hluthafa með það fyrir augum að koma mörkuðunum saman í eina sæng líkt og til stóð framan af.

evrópa sameinast bandaríkjunum

John Thain brást við kaupum Nasdaq með því að bjóða jafnvirði rúmra 724 milljarða íslenskra króna í samevrópska hlutabréfamarkaðinn Euronext, sem rekur kauphallir í Amsterdam í Hollandi, Brussel í Belgíu, í París í Frakklandi og í Lissabon í Portúgal, í maí. Tilboðið var samþykkt í byrjun júní og ganga markaðirnir í eina sæng á næstunni. Með samrunanum verður til fyrsta kauphöllin með starfsemi beggja vegna Atlantsála með markaðsvirði upp á jafnvirði 1.448 milljarða íslenskra króna.

Með tilboðinu skákaði Thain stjórnendum þýsku kauphallarinnar í Frankfurt sem gerði ítrekaðar tilraunir til að sameinast Euronext á síðasta ári. Kauphöllin hafði lengi horft til þess að renna saman við aðrar kauphallir, meðal annars LSE, allt frá 2001 en hóf viðræður við stjórnendur Euronext í mars. Formlegt tilboð var lagt fram undir lok maí. Karpið stóð um væntanlegar höfuðstöðvar sameinaðra markaða sem stjórnendur þýsku kauphallarinnar kröfðust að yrði í Frankfurt. Á það sættist Jean-Francois Theodore, forstjóri Euronext, ekki og hafnaði tilboðinu.

Þrátt fyrir að flestir hlutaðeigendur Euronext hafi samþykkt samruna við NYSE hefur stjórn þýsku kauphallarinnar síður en svo lagt árar í bát því ítalska kauphöllin gekk til liðs við hana um sameiginlegt yfirtökutilboð í Euronext í október. Nýtt tilboð hefur enn sem komið er ekki verið lagt fram í samevrópska markaðinn en Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri evrópska seðlabankans, er sagt hugnast betur að sjá samruna kauphalla og hlutabréfamarkaða í álfunni fremur en að evrópskir markaðir renni saman við bandarískar kauphallir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×