Viðskipti erlent

Olíuverð undir 64 dölum

Olíuborpallur.
Olíuborpallur. Mynd/AFP

Verð á hráolíu fór niður fyrir 64 bandaríkjadali á tunnu í dag í kjölfar þess að OPEC, samtök olíuútflutningsríkja, ákváðu að gera engar breytingar á olíuframleiðslu sinni að loknum fundi samtakanna í dag. Verðið hefur ekki verið lægra síðan í mars á þessu ári.

Verð á Brent Norðursjávarolíu lækkaði um 1,23 dali á markaði í Lundúnum í Bretlandi og í 63,97 dali á tunnu. Fyrr í dag fór það niður niður fyrir 64 dala markið. Þá lækkaði verð á hráolíu um 1,20 dali og fór í 65,05 dali á tunnu.

Hráolíuverð fór hæst í 78,64 dali á tunnu um miðjan júlí en hefur lækkað um 20 prósent frá vopnahléi Ísraelshers og Hizbollah-samtakanna í Líbanon í ágúst.

Að sögn Abdullah bin Hamad al-Attiyah, orkumálaráðherra arabaríksins Katar, eru líkur á að teknar verði ákvarðanir um breytinga á framleiðslunni á næsta fundi samtakanna 14. desember næstkomandi í Nígeríu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×