Viðskipti erlent

Microsoft stefnir hátt með Zune

Microsoft stefnir á að selja allt að eina milljón spilastokka á fyrri hluta næsta árs.
Microsoft stefnir á að selja allt að eina milljón spilastokka á fyrri hluta næsta árs. MYND/AFP

Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft stefnir að því að selja rúm milljón eintök af Zune, nýja spilastokknum sem fyrirtækið framleiðir, á fyrri helmingi næsta árs.

Microsoft setti Zune-spilarann á markað um miðjan síðasta mánuð til höfuðs iTunes-spilastokknum frá Apple, sem hefur selst í um 70 milljónum eintaka á síðastliðnum fimm árum. Zune-spilarinn á hins vegar nokkuð í land með að velta iTunes-stokknum úr toppsætinu því sala hefur verið minni en væntingar stóðu til og er hann í 5. sæti yfir mest seldu spilastokka af svipaðri gerð með einungis um tveggja prósenta markaðshlutdeild.

Þá hafa gagnrýnendur tækjabúnaðar og neytendur ekki gefið spilaranum jafn góða dóma og horft var til.

Talsmaður Microsoft er þrátt fyrir þetta bjartsýnn á framhaldið og segir söluna munu taka við sér. „Við horfum ekki á sölutölur á milli vikna heldur á heildarsöluna yfir lengra tímabil,“ sagði hann.

Zune-spilarinn er með 30 gígabæta hörðum diski og er með þráðlausri tækni, sem gerir notendum hans kleift að senda myndir og lög á samþjöppuðu formi sín á milli án þess að snúrur komi nokkuð við sögu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×