Erlent

Hvatt til hryðjuverka gegn Norðmönnnum og Dönum

Óánægja múslíma í arabaheiminum er komin á það stig að hvatt hefur verið til hryðjuverka gegn Norðmönnum og Dönum á heimasíðu íslamskra öfgasamtaka. Fánar þessara frændþjóða okkar voru víða brenndir í Miðausturlöndum í dag.

Reiði múslima í garð Norðmanna og Dana náði nýjum hæðum í dag. Fjölmennar mótmælagöngur voru haldnar víða um Mið-Austurlönd, meðal annars í Írak, þar sem eldklerkurinn frá Najaf, Muqtada al-Sadr, gaf út tilskipun til fylgismanna sinna um að sniðganga danskar vörur með öllu. Talsmaður hans skoraði á Benedikt páfa sextánda að fordæma teikningarnar umdeildu sem Jótlandspósturinn birti í haust. Dönsku og norsku fánarnir voru að vanda brenndir og kröfugöngur haldnar. Hvatt var til ofbeldisverka gegn Dönum og Norðmönnum í fyrsta sinn í dag en þar voru á ferðinni samtök sem kenna sig við heilaga stríðsmenn og sögð eru hafa staðið fyrir hryðjuverkum í Írak. Víst að mörgum hefur runnið kalt vatn á milli skinns og hörunds við þau tíðindi og þótt enn eftir að staðfesta áreiðanleika vefsíðunnar þar sem áskorunin birtist sýnir hún svo ekki verður um villst á hversu alvarlegt stig málið er komið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×