Erlent

Ótímabundið hlé á kjarnorkuviðræðum

Kim Kye Gwan, varautanríkisráðherra Norður-Kóreu, gengur að hljóðnemunum á blaðamannafundi. Sergey Razov, formaður sendinefndar Rússa, hvetur hann áfram.
Kim Kye Gwan, varautanríkisráðherra Norður-Kóreu, gengur að hljóðnemunum á blaðamannafundi. Sergey Razov, formaður sendinefndar Rússa, hvetur hann áfram. MYND/AP

Vikulöngum viðræðum sex landa um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreumanna lauk í dag án nokkurrar niðurstöðu að hægt sé að tala um. Að svo stöddu verður tekið hlé í viðræðunum og er engin tímasetning á því hvenær þær munu halda áfram. Þetta hefur Yonhap fréttastofan suðurkóreska eftir heimildarmanni sem tekið hefur þátt í viðræðunum.

Samninganefndirnar sitja nú við og reyna að komast að niðurstöðu um það hvenær hægt verði að taka viðræður upp aftur, að sögn þessa sama heimildarmanns. Viðræðurnar sóttu, auk Norður- og Suður-Kóreumanna, Bandaríkjamenn, Kínverjar, Japanar og Rússar.

Þessi niðurstaða kemur hins vegar ekki á óvart í ljósi þess að ráðamenn í Pyongyang höfðu dregið skýrar línur áður en viðræðurnar hófust og var ljóst að Norður-Kóreumenn settu markið hátt í samningaviðræðunum. Þeir kröfðust meðal annars að allar viðskiptahindranir yrðu dregnar til baka og að þeir myndu fá kjarnakljúf sem gengi fyrir venjulegu vatni í stað þungs vatns, til raforkuframleiðslu.

Mikill þrýstingur hefur verið á Bush forseta frá harðlínumönnum í Washington að láta hvergi undan kröfum Norður-Kóreumanna, þó aðrir hvetji til undanlátssemi, til þess að ná samkomulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×