Innlent

Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi afturkræfar

Allar vatnsaflsvirkjanir landsins eru afturkræfar, einnig Kárahnjúkavirkjun og Hálslón. Þetta er mat Birgis Jónssonar, dósents við verkfræðideild Háskóla Íslands.

Spurningin um hvort áhrif mannvirkjagerðar séu afturkræf er lykilspurning í umræðu um náttúruvernd því hún snýr að því hvort kynslóðir framtíðarinnar geti endurheimt landið eins og það var, kjósi þær að hætta nýtingu landsins. Birgir Jónsson verkfræðingur flutti erindi á fundi hjá Orkustofnun og Íslenskum orkurannsóknum í dag og þar staðhæfði hann að íslenskar vatnsaflsvirkjanir væru ekki síður afturkræfar en jarðvarmavirkjanir.

Birgir telur allar vatnsaflsvirkjanir á Íslandi afturkræfar. Það yrði hægt að tæma lón og þá kæmi í ljós land sem væri mjög svipað og var áður nema það hefur bæst við einskonar óseyri út í lónið. Eftir einhverja áratugi væri landið frambærilegt eins og annað hálendisland. Hann segir það einkenna flest íslensk virkjunarlón að þau séu á fornum lónsbotnum. Það gildi um lón Kárahnjúkavirkjunar, Hálslón. Þar hafi fyrrum verið lón sem ræstist fram. Hið náttúrulega lón var afturkræft. Hið sama gildi um manngert lón. Komandi kynslóðir geti tæmt manngerða lónið, ef þær vilja.

Hann hafnar því að jökulframburður sem eftir muni sitja í Hálslóni geri Kárahnjúkavirkjun óafturkræfa. Óseyrin sem þar verði eftir sé sambærileg við Vindheimamela. Sömuleiðis sé Fnjóskadalur fyrrverandi jökullón, sem var 1-2 þúsund ár undir jökulvatni. Allt þetta sé sönnun þess að þetta sé allt saman afturkræft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×