Körfubolti

KR lagði Snæfell í hörkuleik

Jeremiah Sola átti ágætan leik hjá KR í kvöld og skoraði 24 stig
Jeremiah Sola átti ágætan leik hjá KR í kvöld og skoraði 24 stig Mynd/Vilhelm

KR byrjaði leiktíðina með sigri í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið lagði Snæfell á heimavelli sínum 83-79. Heimamenn voru yfir nær allan leikinn, en gestirnir komust yfir þegar nokkrar mínútur voru til leiksloka. Þá fékk Hlynur Bæringsson sína fimmtu villu og eftir það gengu KR-ingar á lagið og höfðu sigur.

Leikurinn í kvöld var í raun ekki mikið fyrir augað og greinilegt að bæði lið eiga eftir að slípa leik sinn umtalsvert. Á meðan lið Snæfells getur státað af sterkri sveit framvarða, verður það sama ekki sagt um bakverði liðsins. KR-ingar geta þakkað fyrir að hafa náð sigri í kvöld gegn baráttuglöðum Hólmurum en bæði lið eiga mikið inni.

Jeremiah Sola var atkvæðamestur í liði KR með 24 stig, Tyson Patterson skoraði 16 stig og gaf 9 stoðsendingar og Fannar Ólafsson skoraði 13 stig og hirti 12 fráköst, en þessi stóri og stæðilegi strákur virtist þó stundum ver meira með hugann við það að nöldra í dómurum.

Hlynur Bæringsson var að venju öflugur í liði Snæfells og skoraði 22 stig og hirti 19 fráköst - þar af 11 sóknarfráköst. Það var Hlynur sem skaut Snæfell inn í leikinn þegar 5 mínútur voru eftir þegar hann skoraði þrjár þriggja stiga körfur í röð á skömmum tíma, en fékk svo sína fimmtu villu á klaufalegan hátt og þá var eins og gestirnir misstu móðinn.

Sigurður Þorvaldsson skoraði 20 stig og hirti 8 fráköst fyrir Snæfell, Magni Hafsteinsson skoraði 14 stig og hirti 12 fráköst og Jón Jónsson skoraði 13 stig. Leikstjórnandinn Justin Shouse var hreint ekki að gera gott mót hjá Snæfelli og hætt er við því að liðið neyðist til að verða sér út um annan mann til að stjórna sóknarleik sínum ef það ætlar sér að gera einhverja hluti í vetur. Eins og til að kóróna slaka frammistöðu sína í kvöld, misnotaði hann svo vítaskot í blálokin sem hefðu geta jafnað leikinn fyrir gestina.

Í Þorlákshöfn áttust við grannarnir Þór og Hamar/Selfoss og þar fór svo að nýliðarnir unnu sigur í sínum fyrsta leik í úrvalsdeildinni 83-79. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×