Erlent

Eldsprengjum kastað að sendiráði Dana í Teheran

Íranar mótmæla.
Íranar mótmæla. MYND/AP

Eldsprengjum og grjóthnullungum var látið rigna yfir danska sendiráðið í Teheran, höfuðborg Írans, í gærkvöld. Um það bil 400 mótmælendur höfðu safnast saman fyrir utan bygginguna til að láta í ljós óánægju með skopmyndir af Múhameð spámanni sem birtust í Jótlandspóstinum fyrir nokkrum mánuðum og hafa vakið mikla reiði meðal múslima.

Lögregla þurfti að beita táragasi til að dreifa mannfjöldanum og að minnsta kosti 9 mótmælendur slösuðust í hamaganginum. Eldur kviknaði í tveimur trjám í garði sendiráðsins þegar Molotov-kokteilum var kastað í þau. Eldur var auk þess lagður að hliði sendiráðsins.

Mótmælendum tókst ekki að komast inn fyrir varðhring lögreglu og að sendiráðinu. Danska utanríkisráðuneytið segir ekkert sendiráðsstarfsfólk í byggingunni en sendiráðinu var lokað á sunnudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×