Erlent

Íslenski fáninn tekinn niður í Amman

Reiði múslíma í garð Dana vegna myndanna af Múhameð spámanni magnast enn. Fjórir liggja í valnum eftir mótmæli í Afganistan og Sómalíu í dag. Og í Amman, höfuðborg Jórdaníu, hefur ræðismaður Íslands tekið niður íslenska þjóðfánann af ótta við að ráðist verði á hús hans.

Það er nánast sama hvar borið er niður í heiminum, alls staðar hafa múslimar sameinast um að lýsa megnri vanþóknum á uppátæki Jótlandspóstsins, og annarra blaða, sem þeir telja freklega árás á trú þeirra og enn eitt dæmið um fyrirlitningu Vesturlanda í sinn garð.

Meira að segja á Nýja-Sjálandi tóku reiðir múslimar höndum saman og andæfðu birtingu þarlendra fjölmiðla á myndunum af Múhameð. Mótmælin í Auckland fóru friðsamlega fram en hið sama var ekki uppi á teningnum í Kabúl, höfuðborg Afganistans. Þar sló í brýnu á milli lögreglu og andófsmanna fyrir framan danska sendiráðið og enduðu átökin með að þrír lágu í valnum. Fyrr um daginn hafði sómalskur maður dáið í svipuðum óeirðum.

Þótt íslenskir fjölmiðlar hafi farið sér hægt í myndbirtingum af spámanninum eru Íslendingar í Miðausturlöndum uggandi enda tilhneiging til að líta svo á að norræn ríki séu eins og ein fjölskylda. Stefanía Reinhardsdóttir Khalifeh, ræðismaður Íslands í Amman í Jórdaníu, sagði í samtali við NFS að hún hafi tekið niður íslenska fánann sem blaktir fyrir utan ræðisskrifstofuna. Eins hafi hún fjarlægt flaggið af bifreið sinni, þótt Stefanía segist hafi raunar ekki farið út úr húsi í dag.

Dönsk stjórnvöld vöruðu í dag þegna sína við að ferðast til þeirra fjórtán landa þar sem ólgan hefur verið einna mest, þar á meðal Jórdaníu. Fjölda flugferða frá Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn til Mið-Austurlanda var aflýst í dag og var ekki annað að heyra á ferðalöngum en að þeir væru því hálfpartinn fegnir að fara hvergi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×