Erlent

Öfgatrúarmönnum heitt í hamsi

Öfgatrúarmenn hótuðu öllu illu í dag, á helgidegi múslíma, vegna birtinga á skopmyndum af spámanninum Múhameð. Í Indónesíu réðst múgur að danska sendiráðinu. Í Líbanon og Íran gengu þúsundir manna um götur og brenndu danska og norska fánann. Ritstjóri norska blaðsins sem birti myndirnar segist nú sjá eftir því. Og í Danmörku átti forsætisráðherrann fund með sendiherrum múslímaþjóða.

Um sjötíu manns reyndu að ráðast inn í danska sendiráðið í Jakarta, en komust ekki inn og létu sér nægja að kasta eggjum í sendiráðsskjöldinn. Í Íran gengu konur eftir götum Teheran borgar og hrópuðu niður með Danmörku. Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur hitti í dag sendiherra 70 múslímaríkja í Kaupmannahöfn. Sendiherrarnir fengu ekki þá kláru afsökunarbeiðni sem þeir voru að vonast eftir.

Stöð tvö í Noregi heimsótti í gær samtök í Palestínu, Andspyrnuráð alþýðu, sem hafa hótað að ráðast gegn Dönum og Norðmönnum vegna myndbirtinganna. Sagði Abu Ahmed, leiðtogi samtakanna, að til væru leiðir til að gera árásir á Evrópumenn, Frakka, Dani og Norðmenn í Palestínu. Þær aðgerðir yrðu alvarlegar ef ekki yrði látið af móðgunum við Múhameð spámann.

Í Bretlandi gengu öfgamúslímar um götur Lundúna og hrópuðu slagorð gegn Dönum og Norðmönnum og var leiðtogi þeirra afdráttarlaus í fordæmingu á myndbirtingunum og þeim sem að baki þeim standa.

Bresk blöð hafa þó ekki birt Múhameðsmyndirnar. Jack Straw utanríkisráðherra fagnaði því í dag og sagði myndbirtingarnar bera vott um virðingarleysi.

Margir hófsamir múslimar óttast að þetta mál, sem hófst á síðasta ári með birtingu Jótlandspóstsins á tólf teiknimyndum, verði til að kynda undir andúð á Vesturlöndum meðal múslíma - og undir andúð á múslímum meðal Vesturlandabúa. Dæmi um það mátti sjá strax eftir bænastundir víða um heim í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×