Erlent

Danski Rauði krossinn flytur starfsmenn sína frá Miðausturlöndum

Ritstjórnarskrifstofur Jótlandspóstsins í Kaupmannahöfn og Árósum voru rýmdar nú síðdegis eftir að sprengjuhótun barst blaðinu. Nú skömmu fyrir fréttir var ákveðið að um gabb væri að ræða . Þúsundir manna í Palestínu og Írak mótmæltu í dag birtingu Jótlandspóstsins á teiknimyndum af Múhameð spámanni. Mótmælin beinast nú bæði að Dönum og Norðmönnum. Danskir hjálparstarfsmenn hafa verið sendir burt frá Miðausturlöndum af ótta við að þeir verði fyrir árásum.

Annan daginn í röð fóru þúsundir múslima út á götur Gaza í Palestínu og brenndu danska fána. Danski forsætisráðherrann var skotspónn kröfumanna, en hann hefur neitað að fordæma birtingu skopmyndanna af Múhameð spámanni.

Í Najaf í Írak mótmæltu menn líka og brenndu bæði danska og norska fána í dag, en norskt blað birti myndirnar nýlega. Teikningarnar sem um ræðir voru birtar eftir að Jótlandspósturinn fékk tólf teiknara til að teikna myndir af Múhameð spámanni. Ein sýndi spámanninn með túrban í líki sprengju. Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur segist ekki geta ritskoðað danskt blað. Danski Rauði krossinn ákvað í dag að senda þrjá danska hjálparstarfsmenn burt af starfssvæðum sínum í Miðausturlöndum vegna hótana sem þeim höfðu borist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×