Erlent

Neita kröfum Sameinuðu þjóðanna

Hamas-samtökin hafa neitað kröfu Sameinuðu þjóðanna um að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis og ætla ekki að leggja niður vopn. Þeir krefjast þess þó að Evrópusambandið haldi áfram fjárframlögum til Palestínu.

Evrópusambandið mun halda áfram fjárstuðningi við heimastjórn Palestínumanna svo lengi sem hin nýja stjórn heldur friðinn við Ísrael og fer að leikreglum. Þetta var niðustaða fundar sem Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hélt með fulltrúum Evrópusambandsins, Bandaríkjastjórnar og Rússlands í gærkvöldi. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að ómögulegt væri að semja um frið við Ísraela annars vegar og hins vegar að samþykkja sjálfsvígsárásir en Hamas hafa neitað að viðurkenna Ísraelsríki og hafa neitað að leggja niður vopn. Æðstu ráðamenn innan Hamas biðluðu þrátt fyrir það til ESB um að stöðva ekki fjárstuðning sinn við Palestínu en aðildarríki ESB veittu rúma 36 milljarða króna til Palestínu í fyrra. Þá hvatti Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, einnig erlend ríki til að halda áfram aðstoð svo hægt yrði að reka áfram helstu stofnanir Palestínumanna. Hann sagðist myndi berjast fyrir því að Palestínumenn leggðu áherslu á friðarsamninga við Ísraelsmenn og að gerðir samningar við þá yrðu virtir.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×