Erlent

Námuverkamennirnir enn fastir í námunni

Þrettán námuverkamenn eru enn milli heims og helju í námu í Virginíu í Bandaríkjunum og komast ekki út. Baneitrað kolmónoxíð hefur safnast upp í námunni. Leit að mönnunum stóð enn yfir á sjöunda tímanum í kvöld.

Sprenging varð í námunni þegar eldingu laust niður í nágrenninu í gær. Við það slökknaði á samskiptatækjum námuverkamannanna og ekki hefur verið hægt að hafa samband við þá síðan. Sex aðrir námuverkamenn, sem komust út, reyndu að ná til félaga sinna en varð ekki ágengt. Í allan dag hafa fjölmargir ættingjar mannanna þrettán beðið við námuna á milli vonar og ótta og reynt að hughreysta hver annan.

Biðin er orðin löng enda er liðinn meira en sólarhringur síðan sprengingin varð og margir orðnir úrkula vonar um að mennirnir skili sér heilu og höldnu. Ekki er vitað hversu miklar súrefnisbirgðir mannanna eru eða hversu mikið olnbogarými þeir hafa þar sem þeir sitja fastir.

Þeir námamenn sem sluppu segja vinnufélaga sína þrettán hafa lofthreinsitæki þar sem þeir eru en enga súrefniskúta. Síðdegis var borað ofan í námuna og þá kom í ljós að lífshættulegt magn af kolmónoxíði er í loftinu. Kolmónoxið er baneitrað efni og inni í námunni er magn þess nú þrefalt yfir hættumörkum. Ljóst er að mennirnir munu ekki þola þetta andrúmsloft til lengdar. Myndavél sem send var meira en sjötíu metra niður í námuna í dag greindi ekkert lífsmark.

Yfirmaður námufyrirtækisins segir samt ekki tímabært að gefast upp, enda séu leitarmennirnir þrautreyndir og á næstu klukkutímunum verði látið sverfa til stáls og öllu tjaldað til í björgunaraðgerðum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×