Erlent

Hjálparstarf á jarðskjálftasvæðunum í Pakistan er í uppnámi

Hjálparstarf á jarðskjálftasvæðunum í Pakistan er í uppnámi, eftir að fyrsti snjór vetrarins féll um helgina. Tvær og hálf milljón manna hefst enn við í tjöldum og mörg hundruð manns hafa veikst illa af völdum nístingskulda um helgina.

Strax eftir jarðskjálftann áttunda október var varað við því að þúsundir manna myndu týna lífi í vetrarhörkunum ef ekki yrði brugðist strax við. En þó að stór hluti tjaldanna á skjálftasvæðunum dugi illa í miklum kuldum, hefur það orðið til happs að veturinn hefur verið með mildara móti.

Undanfarna tvo daga hefur nær ekkert verið hægt að fljúga vegna úrkomu og því eru fjögur hundruð þúsund manns sem hafast við í meira en fimmtán hundruð metra hæð alveg afskiptir og í stórkostlegri hættu ef veturinn harðnar frekar.

Í raun er ástandið ekki heldur beisið hjá þeim tveim milljónum sem hafast við í tjöldum lægr í fjölllendinu, en eðli málsins samkvæmt er kuldinn þar jafnan eitthvað minni og eins auðveldara að komast að fólkinu.

Hinum megin landamæranna Indlandsmegin hefur snjónum líka kyngt niður um helgina, en þar hafa um hundrað þúsund manns þurft að hafast við í tjöldum síðan skjálftinn reið yfir.

Í gær voru 250 lagðir inn á sjúkrahús með lungnabólgu eða aðra kvilla sem rekja má beint til kuldanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×