Innlent

44% stöðuveitinga af pólitískum toga

44 prósent stöðuveitinga í æðstu embætti ríkisins eru af pólitískum toga. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar á útbreiðslu pólitískra stöðuveitinga hjá hinu opinbera. Það var Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor sem framkvæmdi rannsóknina. Í henni skoðaði hann 111 stöðuveitingar í æðstu störf ríkisins á árunum 2001-2005.

Þar af voru 82 þeirra í stöðu forstöðumanna en hinar 23 í embætti ráðuneytisstjóra, sendiherra og hæstaréttadómara. Gunnar Helgi skipti stöðuveitingunum í þrjá flokka, klassískan, faglegan og pólitískan og gat hver og ein stöðuveiting lent í fleiri en einum flokki.

Skemmst er frá því að segja að í 44% tilfella var hægt að segja að um pólitíska stöðuveitingu hafi verið að ræða. Það þýðir að í 49 tilfellum af þeim 111 stöðuveitingum sem rannsakaðar voru var um pólitíska stöðuveitinga að ræða og þar af lentu 18 þeirra aðeins í þeim flokki. Annars var skiptingin í flokkana þessi:

57% prósent stöðuveitinga töldust vera af klassískum toga, í 68 prósetn tilfelli réðu fagleg sjónarmið úrslitum og í 44 prósent tilfella var um pólitíska ráðningu að ræða.

Erfitt er að meta hvort umfang pólitískra stöðuveitinga er mikið eða lítið á Íslandi en þess ber að geta rannsóknin vanmetur umfangið. Ástæðan segir Gunnar Helgi sé sú að í einhverjum tilfellum gæti verið að hann eða viðmælendur sínir hafi ekki áttað sig á eða vitað af tengslunum.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom einnig í ljós að ein ákveðin tegund pólitískrar stöðuveitingar var sérstaklega áberandi í utanríkisþjónustunni. Það var svokölluð samtrygging sem gengur út á það að allir stjórnmálamenn, óháð skoðunum, tryggja hver öðrum stöðuveitingar þegar stjórnmálaferli þeirra líkur.

Niðurstöður rannsóknarinnar má lesa í heild sinni á vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×