Lífið

Látum ekki ritskoða okkur

Baggalútur hefur samið lag sem gefið verður út til styrktar barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.
Baggalútur hefur samið lag sem gefið verður út til styrktar barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.

Hljómsveitin Baggalútur hefur gefið út lagið Brostu til styrktar barnahjálp Sameinuðu þjóðanna en þetta er gert í tilefni af degi Rauða nefsins sem haldinn verður hátíðlegur víða um heim hinn 1. desember. Tilgangurinn er að fá fólk til að hlæja og skemmta sér en um leið að vekja athygli á góðu málefni.

Baggalútsmaðurinn Guðmundur Pálsson segir að þeir félagar hafi ekki getað skorast undan þegar Unicef á Íslandi kom að máli við þá. „Við vorum meira en lítið tilbúnir að leggja þessu málefni lið, maður segir ekki nei við svona,“ útskýrir Guðmundur en fjöldi þjóðþekktra einstaklinga leggur þeim lið, þeirra á meðal Unnur Birna Vilhjálmsdóttir og kóngurinn sjálfur, Bubbi Morthens. „Okkur fannst mjög skemmtilegt að vera í sama herbergi og Unnur og Bubbi á sama tíma,“ segir Guðmundur. „Og þau mega eiga það að allir voru stundvísir og allir til í að vera með,“ bætir Guðmundur við. „Svo hlupum við um bæinn með upptökutæki en einhverjir létu þó sjá sig í upptökuverinu,“ bætir Guðmundur við.

Í nógu er að snúast hjá Baggalúti því það styttist í jólaplötu sveitarinnar með öllum aðventulögum flokksins auk fjögurra nýrra. Þá hyggja þeir á endurkomu í útvarpið en fyrsta innslag þeirra verður frumflutt á laugardaginn á Rás 2. Baggalútur er þar á kunnugum slóðum en hljómsveitin fór mikinn á öldum ljósvakans fyrir tveimur árum en hvarf síðan af dagskránni ansi snögglega. „Við vorum eiginlega beðnir um að hætta á vinsamlegu nótunum,“ segir Guðmundur. „Þetta gekk svona misvel ofan í fólk þá en nú eru komnir nýir stjórnendur og nýtt blóð, við látum samt ekkert ritskoða okkur,“ bætir Guðmundur við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.