Erlent

Ellefu látnir eftir að þak skautahallar hrundi

Tala látinna eftir að þak skautahallar í bænum Bad Reichenhall í Þýskalandi hrundi, er komin í ellefu. Meðal látinna eru sex börn. Slökkviliðsmenn notuðu krana til að færa til þakbrotin svo hægt væri að komast að skautasvellinu. Fimm hundruð björgunarmenn komu að björgunaraðgerðum sem gengu brösulega vegna mikillar snjókomu. Erfiðlega gekk að flytja stórvirkar vinnuvélar á slysstað vegna ófærðar en mikið hefur snjóað á svæðinu. Talið er að þakið hafi hrunið undan snjóþunga en þjálfari íshokkíliðs bæjarins sagði í samtali við fjölmiðla að til hafi staðið að hreinsa snjó af þakinu þegar það lét undan.

Sex er enn saknað en fimmtíu manns voru í skautahöllinni þegar þakið hrundi. Átján slösuðust, þar af þrír alvarlega, en sextán sluppu ómeiddir. Tæpur sólahringur er frá að slysið varð en rúmum fimm klukkustundum eftir slysið fannst sex ára stelpa á lífi og lítið meidd og kviknuðu þá vonir um að fleiri gætu fundist á lífi af þeim sem enn er saknað. Þær vonir hafa þó dofnað eftir því sem á hefur liði.

Talsvert var af börnum í höllinni þegar slysið varð en í gær var síðasti dagur jólafrís í þýskum skólum. Meðal þeirra látu eru þrettán ára strákur, tvær stelpur, sjö og átta ára, og móðir stelpnanna. Tólf ára drengur var fluttur af slysstað mikið slasaður, hann lést síðar á sjúkrahúsi.



 

 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×