Viðskipti innlent

Hagvöxtur er mun minni en áður var gert ráð fyrir

Tölur Hagstofunnar um hagvöxt hafa tekið breytingum við endurskoðun og kom til dæmis í ljós á þessu ári að hagvöxtur í fyrra var mun meiri en ætlað hafði verið. Nýjasta mæling á þriðja ársfjórðungi bendir til minni hagvaxtar en ætlað var.
Tölur Hagstofunnar um hagvöxt hafa tekið breytingum við endurskoðun og kom til dæmis í ljós á þessu ári að hagvöxtur í fyrra var mun meiri en ætlað hafði verið. Nýjasta mæling á þriðja ársfjórðungi bendir til minni hagvaxtar en ætlað var. MYND/Hari

Sérfræðingar eru bjartsýnni á stöðu efnahagsmála eftir birtingu nýjustu talna um hagvöxt. Greiningardeildir bankanna eru samt ekki á einu máli um væntanlega stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Þeir spá núll til 50 punkta hækkun.

Verulega hefur hægt hér á hagvexti samkvæmt nýjustu mælingu Hagstofu Íslands. Hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi mældist hann 0,8 próesent og hefur ekki verið minni síðan í árslok. Á þriðja ársfjórðungi í fyrra var hagvöxturinn 10,0 prósent.

Greiningardeildir bankanna fjalla allar um breyttar horfur eftir mælinguna og telja tölurnar benda til að verulega hafi dregið úr verðbólguþrýstingi. Kaupþing telur þó engu að síður að Seðlabankinn hækki stýrivexti á aukavaxtaákvörðunardegi sínum 21. desember næstkomandi. Greiningardeildin segist ekki sjá að spá Seðlabankans frá síðustu Peningamálum hafi hnikast mikið til og því megi búast við 25 til 50 punkta hækkun. Stýrivextir gætu því farið úr 14 prósentum í 14,5 prósent.

Greiningardeild Landsbankans stendur hins vegar við spá sína um óbreytta stýrivexti þann 21. desember, þótt undanfarið hafi umræðan þróast á þann veg að líkur á stýrivaxtahækkun hafi fremur aukist. Þá telur Landsbankinn að lækkunarferli stýrivaxta hefjist í marslok. Bendir greiningardeildin þar sérstaklega á hagvaxtartölur Hagstofunnar.

Bankinn segir ýmis merki um viðsnúning í efnahagslífinu, minni þenslu og þar með minnkandi verðbólguþrýsting. Þannig hafi dregið úr vexti útlána og húsnæðisverð hætt að hækka, auk þess sem undanfarnar verðbólgumælingar hafi verið lágar. Þá sýni tölur um hagvöxt, einkaneyslu og fjárfestingar á þriðja ársfjórðungi mun minni vöxt en áður. Á móti bendir bankinn svo á að veiking krónunnar 5,6 prósent frá síðustu spá Seðlabankans auki að öðru óbreyttu verðbólguþrýsting og að kosningaloforð séu í algleymingi.

Greiningardeild Glitnis fer svo milliveginn í spám Landsbankans og Kaupþings og spáir núll til 25 punkta hækkun stýrivaxta. Bankinn segir hagvaxtartölurnar bera þess skýr merki að umskipti séu að verða í gangi þjóðarbúskaparins þar sem tímabil stöðnunar og hugsanlega samdráttar sé að taka við af hröðum vexti. „Tölurnar eru mikilvægar fyrir næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans. Þær draga talsvert úr líkum á því að Seðlabankinn muni hækka vexti.“ segir Glitnir.

Friðrik Már Baldursson, forseti viðskipta- og hagfræðideildar Háskólans, segir Seðlabankann horfa til margra þátta þegar kemur að vaxtaákvörðun og því kunni að vera varhugavert að einblína um of á hagvaxtartölur Hagstofunnar. „Margir aðrir þættir liggja mun hraðar fyrir og hefur sýnt sig að þessar fyrstu áætlanir hagstofunnar um hagvöxt breytast stundum og eru kannski ekki mjög nákvæmar,“ segir hann og bendir á að ýmsar aðrar vísbendingar bendi til þess að staðan sé betri en spáð hafi verið. „Viðskiptajöfnuður er skárri og svo framvegis. En samt verður að segjast eins og er að engin óyggjandi vísbending er um að eitthvað sé að linna undirliggjandi verðbólkuþrýstingi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×